Fréttir

Knattspyrna | 15. mars 2004

Góð byrjun hjá 3. flokki

3. flokkur Keflavíkur hóf keppni í Faxaflóamótinu síðasta föstudag. Fyrsti leikur liðsins var gegn sterku liði Breiðabliks.  Breiðablik vann haust-Faxaflóamótið án þess að tapa leik og unnu til að mynda Keflavíkurliðið auðveldlega 5-0, var því búist við erfiðum leik hjá Keflavík.  Leikurinn byrjaði ekki vel hjá okkar mönnum og eftir aðeins fjórar mínútur var staðan orðin 1-0 fyrir Breiðablik og skömmu síðar var staðan orðin 2-0.  En Keflavíkurstrákarnir gáfust ekki upp og náðu að jafna leikinn fyrir leikhlé með mörkum frá Bjarka Þór Frímannssyni og Þorsteini Þorsteinssyni.  Í síðari hálfleik bættu Keflvíkingar við tveim stórglæsilegum mörkum.  Fyrst skoraði Einar Orri Einarsson glæsilegt mark eftir frábært samspil og skömmu síðar bætti Þorsteinn við sínu öðru marki með hörkuskoti af löngu færi þar sem boltinn small í þverslánni og fór þaðan niður.  Aðstoðardómarinn var vel staðsettur og dæmdi markið gilt og staðan var orðin 4-2.  Undir lok leiksins minnkuðu Breiðablik muninn í eitt mark en Keflavíkurstrákarnir settu þá bara aftur í gang og bættu við fimmta markinu í næstu sókn og var það Björgvin Magnússon sem skoraði það.  Frábær sigur hjá Keflavík, 5-3.
 
Það hefur einkennt þennan hóp hjá Keflavík að gefast ekki upp þó þeir verði fyrir mótlæti heldur tvíeflast þeir við mótlætið.  Að lenda 0-2 undir gegn svona sterku liði og ná að vinna leikinn sýnir karakterinn í liðinu vel.  Strákarnir byrjuðu ekki vel í leiknum, mikið óöryggi var í liðinu sem kostuðu tvö mörk.  Þeir tóku sig þó á þegar leið á fyrri hálfleikinn og síðari hálfleikurinn var frábær hjá strákunum.  Sérstaklega var mikil vinnsla á miðjunni og þar réðu ríkjum þeir Einar Orri og Garðar Eðvaldsson, þá kom Helgi Eggertsson sterkur inn í síðari hálfleik.  Annars er erfitt að taka út einstaka leikmenn þar sem allir léku vel þegar líða tók á leikinn.
 
Liðið: Teitur Albertsson, Natan Freyr Guðmundsson, Theodór Kjartansson, Björgvin Magnússon, Viktor Guðnason, Garðar Eðvaldsson, Gísli Örn Gíslason, Bjarki Þór Frímannsson, Þorsteinn Þorsteinsson, Ari Haukur Arason, Einar Orri Einarsson.
Varamenn: Fannar Óli Ólafsson, Stefán Lynn Price, Vilhjálmur Birnisson, Helgi Eggertsson, Miroslav Potkrajac.