Góð byrjun og sigur í Vesturbænum
Keflavíkurliðið byrjaði Landsbankadeildina með glæsibrag og vann góðan útisigur á KR í lokaleik 1. umferðarinnar. Lokatölur urðu 2-1. Guðmundur Steinarsson kom Keflavík yfir með marki úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks eftir að Pétur Marteinsson hafði brotið á Magnúsi Þorsteinssyni innan teigs. Um miðjan seinni hálfleikinn kom Símun Samuelsen okkar mönnum tveimur mörkum yfir með góðu marki eftir góða fyrirgjöf frá Marco Kotilainen. Undir lok leiksins minnkaði Björgólfur Takefusa muninn þegar hann skallaði boltann í netið af stuttu færi. Sigur Keflavíkur var sanngjarn en liðið lék án þeirra Guðmundar Mete og Kenneth Gustavson. Það kórónaði síðan góðan sigur að sjá Ingva Rafn Guðmundsson koma inn á undir lok leiksins en hann lék þar sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í tæp tvö ár.
Morgunblaðið
Vinnusigur er lýsingarorðið sem á vel við sigur Keflvíkinga. Þeir gáfu KR-ingum ekki stundarfrið, höfðu betur í návígjum og eins og þeirra er vani var baráttan í góðu lagi. Keflvíkingar spiluðu ekki neinn glansleik. Þeir léku agað og af mikilli skynsemi og uppskáru eftir því. Skyndisóknir þeirra voru skæðar og árangursríkar og Keflvíkingar með þetta baráttulið verða öllum liðum erfiðir. Nýju mennirnir komu vel út í liðinu. Danski miðvörðurinn Nicolaj Jörgensen var sterkur og hann og Hallgrímur Jónasson náðu vel saman og hinn nýi maðurinn í liðinu, Svíinn Marco Kotilainen er sprækur kantmaður og vel spilandi. Markvörðurinn Ómar Jóhannsson greip vel inn í leikinn og þeir Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Guðmundur Steinarsson og Simun Samuelsson, lykilmenn liðsins, áttu góðan leik.
M: Ómar, Hallgrímur, Nicolai, Baldur, Jónas, Símun.
Fréttablaðið
Keflavík byrjar sumarið með látum en þeir fóru með þrjú stig heim úr Vesturbænum í gær. Keflavík spilaði skynsaman bolta, nýtti sín færi á meðan KR spilaði slakan sóknarleik og gaf Keflavík eitt mark með kærulausum varnarleik.
Ómar Jóhannsson 7, Guðjón Antoníusson 6, Hallgrímur Jónasson 7, Nicolai Jörgensen 7, Branko Milicevic 6, Marco Kotilainen 6, Jónas Guðni Sævarsson 5, Baldur Sigurðsson 6, Símun Samuelsen 6 (Ingvi Rafn Guðmundsson -), Magnús Þorsteinsson 3 (Einar Örn Einarsson 3), Guðmundur Steinarsson 5.
Víkurfréttir
„Þetta var ótrúlega ljúft og ennþá betra að fá að koma inn á í sigurleik gegn KR. Stjáni var búinn að nefna það við mig að ég gæti komið inn á og hann setti mig inn þegar um 10 mínútur voru eftir og leyfði mér aðeins að smakka,“ sagði Ingvi Rafn. „Mér leið ótrúlega vel og það er ólýsanlega gaman að vera kominn aftur á völlinn. Ég er örlítið aumur í ökklanum en maður harkar af sér til að fá að spila, það gera allir,” sagði Ingvi kátur í leikslok. ,,Það er svolítið í það að ég komist í byrjunarliðið því ég er ekki kominn í almennilegt form.” Ingva var vel fagnað bæði af áhangendum Keflavíkur og KR þegar hann kom inn á leikvöllinn en Ingvi sagðist nú mest lítið hafa spáð í stúkunni. ,,Þetta voru vissulega hlýjar móttökur og það gerir þetta bara ennþá sætara,” sagði Ingvi.
Fótbolti.net
Keflvíkingar héldu áfram ótrúlegri framgöngu sinni í Frostaskjóli í kvöld þegar þeir lögðu heimamenn með tveimur mörkum gegn einu. Keflvíkingar þurftu að stokka upp vörninni vegna meiðsla lykilmanna og þá var Þórarinn Kristjánsson hvergi sjáanlegur í hóp Keflavíkur liðsins.
Maður leiksins: Marco Kotilainen
Gras.is
[Viðtal við Kristján þjálfara] Guðjón Guðmundsson sagði í lýsingunni að þú hafir hoppað og skoppað og alveg við það að fara á taugum?
„Já, þetta var svona en það voru alltaf mörg mistök, við þorðum ekki að halda boltanum of lengi innan liðsins. Þessar stundir sem við héldum boltanum og meðal annars þegar við skorum mark númer tvö þá erum við í góðu lagi.“
Þið voruð stálheppnir að vera yfir í hálfleik?
„Án efa og mér sýnist þetta vera hin þokkalegustu færi sem þeir eru að fá. Við ræddum það í hálfleik að þar sem við erum 1-0 yfir með þessari frammistöðu hvernig getum við gert ef bætum þessa frammistöðu og það kom í ljós en við byrjum leikinn alveg afspyrnu illa og sló leikmenn út af laginu. Þú sérð ekki leikmennina hlaupa eða bakverðina koma upp og það tók okkur langan tíma að vinna okkur úr þessari byrjun.“
KR-völlur, Landsbankadeildin, 14. maí 2007
KR 1 (Björgólfur Takefusa 82.)
Keflavík 2 (Guðmundur Steinarsson víti 40., Símun Samuelsen 62.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Hallgrímur Jónasson, Nicolai Jörgensen, Branko Milicevic - Marco Kotilainen, Jónas Guðni Sævarsson, Baldur Sigurðsson, Símun Samuelsen (Ingvi Rafn Guðmundsson 82.) - Magnús Þorsteinsson (Einar Örn Einarsson 46.), Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson, Þorsteinn Georgsson, Einar Orri Einarsson, Hilmar Trausti Arnarson, Stefán Örn Arnarson.
Dómari: Egill Már Markússon.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Gunnar Gylfason.
Varadómari: Garðar Örn Hinriksson.
Eftirlitsmaður: Þorvarður Björnsson.
Áhorfendur: 1891.
Guðmundur kemur Keflavík yfir úr vítaspyrnu.
(Mynd: jbo / Víkurfréttir)
Langþráð endurkoma. Ingvi Rafn kom inn á undir lokin.
(Mynd: jbo / Víkurfréttir)