Góðir sigrar hjá 4. flokknum
Keflavíkurpiltar léku í gær, fimmtudag, gegn Valsmönnum á Íslandsmóti 4. flokks. Leikið var á Aðalvellinum við Hringbraut við frábærar aðstæður, flottur völlur og frábært veður. A-liðið sigraði Val 5-2 þar sem Magnús Þórir Matthíasson var enn og aftur á skotskónum og gerði 4 mörk en Marko Valdimar Stefánsson gerði eitt mark. Með sigrinum styrktu Keflavíkurpiltar stöðu sína í riðlinum en þeir eiga nú einn leik eftir gegn Víkingum. Valspiltar eru fallnir í B-riðil og Víkingar eða Keflavík fylgja þeim niður. Víkingspiltar þurfa að sigra Keflavík með 6 marka mun til þess að komast upp fyrir þá, liðin leika í Víkinni n.k. fimmtudag.
Leikur B-liðanna í gær var mjög kaflaskiptur, Valspiltar komust í 1-3 en Keflvíkingar settu í fluggír á lokakafla leiksins og sigruðu 5-3. Mörk Keflavíkur gerðu Sigurbergur Elísson 2, Stefán Geirsson 2 og Birgir Ólafsson.
Magnús Þórir Matthíasson hefur verið duglegur
við markaskorun og gerði 4 mörk gegn Val.