Góðir sigrar hjá stelpunum
Loksins, loksins. Það kom að því að stelpurnar í 4. flokki sýndu sitt rétta andlit er þær tóku á móti HK á Iðavöllum og báru sigur úr býtum í A- og B-liðum.
Nú small allt saman hjá A-liðinu og stelpurnar náðu að sýna frábæran leik eins og þær gera best þegar að þær ná sér á strik. Stelpurnar byrjuðu leikinn með mikilli ákveðni og ætluðu greinilega að sýna áhorfendum að þær væru mættar á völlinn til að sigra. Varnarleikur liðsins var frábær, miðjumenn duttu vel til baka og lokuðu svæðum vel þannig að gestirnir áttu mjög erfitt að ná upp spili. Fyrsta markið skoraði Sigurbjörg (Bagga) með góðu skoti utan af hægri kanti í fjærhornið. HK náði að jafna leikinn með góðu marki en Sveindís náði aftur forystu með glæsilegum einleik upp kantinn inn í teig og renndi boltanum í netið. Staðan 2-1 í hálfleik. Stelpurnar héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og bættu við þremur mörkum, Fanney með tvö og Sigurbjörg eitt. Eins og áður segir náðu stelpurnar sér virkilega á strik og gaman var að horfa á þær í þessum leik. Það sem kom á okkar mark hirti Zohara af miklu öryggi. Án þess að hallað sé á nokkra í leiknum, svo góðar voru þær, skal þó geta leiks Laufeyjar sem gjörsamlega hélt skæðasta leikmanni HK í greipum sér.
4. flokkur kvenna, A-lið:
Keflavík - HK: 5-1 (Sigurbjörg Auðunsdóttir 2, Fanney Kristinsdóttir 2, Sveindís Þórhallsdóttir)
Í leik B-liða var algjör einstefna að marki HK allan leikinn og aðeins spurning hversu mörg mörk stelpurnar næðu að skora. Hanna skoraði fyrsta markið og Berta skoraði annað markið og staðan 2-0 í hálfleik. Í seinni hálfleik bættu þær við fjórum mörkum, Elsa Dóra með tvö, Berta með sitt annað í leiknum og að lokum setti Guðrún Ólöf eitt. Stelpurnar réðu gjörsamlega gangi þessa leiks og hafði Isabella það mjög náðugt í markinu. Liðið var að spila vel alveg frá aftasta manni til fremsta manns og skiptimenn komu vel inn í leikinn. Vert er að geta frammistöðu Elsu Dóru sem stoppaði ekki allan leikinn, gjörsamlega þindarlaus. Góður sigur og lokatölur 6-0.
4. flokkur kvenna, B-lið:
Keflavík - HK: 6-0 (Elsa Dóra Hreinsdóttir 2, Berta Björnsdóttir, Guðrún Ólöf Olsen, Hanna)