Fréttir

Knattspyrna | 29. apríl 2004

Góðir sigrar hjá stelpunum í 4. flokki

Á þriðjudag sótti 4. flokkur kvenna Skagastelpur heim, leikið var í A- og B-liðum.  Blíðskaparveður var á Skaganum en ekki gef ég malarvellinum þeirra háa einkunn.

Í A-liðs leiknum var nokkurt jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en heimastúlkur náðu þó forystu og leiddu í hlé 1-0.  Í seinni hálfleik stjórnuðum við leiknum og komumst yfir með mörkum frá Írisi Björk 1-2.  Áður en blásið var til leiksloka höfðu Sigurbjörg (Bagga)og Elsa bætt við tveimur mörkum.  Lokastaðan því 1-4.

4. flokkur kvenna, A-lið:
ÍA - Keflavík: 1-4 (Íris Björk Rúnarsdóttir 2, Sigurbjörg Auðunsdóttir, Elsa Hreinsdóttir)

Í leik B-liða sóttum við meira í fyrri hálfleik en lentum þó undir 1-0.  Eyrún Ósk náði að jafna leikinn fljótlega og koma okkur síðan yfir 1-2 og þannig var staðan í hálfleik.  Í seinni hálfleik snerist dæmið við og nú sóttu heimastelpur meira og við gáfum eftir.  Máttum við þakka fyrir að halda þetta út og innbyrða 1-2 sigur í þessum leik.

4. flokkur kvenna, B-lið:
ÍA - Keflavík: 1-2 (Eyrún Ósk Magnúsdóttir 2)

Ekki má gleyma þætti Fanneyjar Kristinsdóttur og Freyju Hrund Marteinsdóttur sem eru meiddar og voru mér til aðstoðar í leikjunum tveimur og sáu alfarið um að fylla á vatnsbrúsana.  Eftir að hafa heimsótt ÍA og náð að sigra í tveimur leikjum ríkti mikið fjör og mikil gleði í rútunni heim.  ÁFRAM STELPUR. 

Elís Kristjánsson, þjálfari