Góðir sigrar og fullt af mörkum
Keflavík lék tvo leiki um helgina, einn úti og einn inni, og vann góða sigra í þeim báðum. Á laugardaginn var leikinn æfingaleikur gegn Stjörnunni í Kórnum. Þar vann Keflavík 5-2 þar sem Ísak Þórðarson skoraði tvö mörk og þeir Arnór Ingvi Traustason, Sigurður Sævarsson og Einar Orri Einarsson eitt hver. Á sunnudag var svo síðasti leikurinn í riðlakeppninni í Futsal og þar unnu okkar menn lið Leiknis/KB 8-1. Þar var Sigurður Sævars enn á skotskónum og gerði fjögur mörk, Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði tvö og Guðmundur Steinarsson og Haraldur Freyr Guðmundsson eitt hvor. Keflavík vann riðilinn örugglega, liðið vann alla fjóra leikina og markatalan var 51-23.
Lokaæfing þessa árs verður á miðvikudaginn en síðan tekur jólafrí við. Þeir leikmenn sem eru í Futsal-liðinu komast þó ekki alveg strax í frí en úrslitakeppnin verður um næstu helgi.
Meistaraflokkur kvenna er kominn í jólafrí. Stelpurnar hefjast aftur handa í janúar og byrja þá sinn undirbúning fyrir næsta keppnistímabil.
Sigurður var í markaham um helgina. Hann er hér með Íslandsbikarinn í fyrra.