Fréttir

Knattspyrna | 28. ágúst 2008

Góðir sigrar og síðasti heimaleikur hja meistaraflokki kvenna

Meistaraflokkur kvenna hefur sigrað tvo síðustu leiki sína í Landsbankadeild kvenna og er langt kominn með að koma sér endanlega af fallsvæðinu í deildinni.  Síðasti heimaleikur liðsins verður á Sparisjóðsvellinum laugardaginn 30. ágúst kl. 14:00, þegar við fáum Aftureldingu í heimsókn.  Liðið þarf eitt stig úr þeim tveimur leikjum til að tryggja sig endanlega í hópi þeirra bestu.  Hvetjum við alla að mæta og styðja stelpurnar.

Mánudaginn 18. ágúst, Sparisjóðsvellinum Keflavík kl. 19:15 - Keflavík - HK/Víkingur: 3-1
Keflavík mætti ákveðið til leiks gegn HK/Víkingi í næst síðasta heimaleik sínum staðráðið í að sigra.  Keflavík var komið í 2-0 þegar 15 mínútur vour liðnar með mörkum frá Lindu Þorláksdóttur á 11. mínútu og Dönku Podovac á 14. mínútu.  Keflavík varðist vel í leiknum, voru hreyfanlegar og áræðnar í sóknarleik sínum.  Í seinni hálfleik bætti Danka sínu öðru marki við á 59. mínútu og kom Keflavík í 3-0.  HK/Víkingur minnkaði muninn á 79. mínútu þegar Marina Nesic skoraði beint úr aukaspyrnu af 30 metra færi, 3-1.  Þar við sat og góður sigur hjá Keflavík.

Þriðjudaginn 26. ágúst, Fjölnisvelli kl. 18:00 - Fjölnir - Keflavík: 0-6
Þegar Keflavík sótti lið Fjölnis heim var búist við hörkuleik þar sem bæði liðin voru í fallhættu, mismikilli þó.  Fjölnir var í neðsta sæti og þurfti að sigra, annars væri liðið fallið í 1. deild.  Leikurinn varð aldrei sá spennuleikur því yfirburðir Keflavíkur voru það miklir, t.d. átti Keflavík þrisvar sinnum skot í marksúlur   Fjölnis auk annara góðra færa sem fóru forgörðum.   En sigur Keflavíkur góður og mikilvægur fyrir liðið.  Mörk Keflavíkur gerðu Danka Podovac (38., 43.), Vesna Smiljkovic (13.), Guðný Þórðardóttir (49.), Inga Lára Jónsdóttir (víti 73.) og eitt markanna var sjálfsmark Fjölnis (41.).  Gott veganesti fyrri Keflavík í síðustu tvo leiki liðsins og greinileg batamerki á leik liðsins.  Gaman að sjá að gleði er komin aftur í leik Keflavíkur.

ÞÞ