Fréttir

Knattspyrna | 13. ágúst 2003

Góður leikur en tap

3. flokkur kvenna, 11 manna lið, lék á þriðjudag síðasta leik sinn í Íslandsmótinu er þær fengu HK efsta liðið í B-riðli í heimsókn.  Leikið var á aðalvellinum í blíðskaparveðri.  Stelpurnar mættu heldur betur klárar og tilbúnar í að gefa allt í þennan leik.  Nokkurt jafnræði var þó með liðunum í fyrri hálfleik en þó áttu gestirnir hættulegasta færið er sóknarmaður þeirra komst ein í gegn á móti markmanni en skot hennar fór yfir markið.  Er um tíu mínutur voru liðnar af síðari hálfleik skoraði Hildur Haraldsdóttir 1-0.  HK stúlkur reyndu nú allt til að jafna leikinn en þær máttu alls ekki tapa eða gera jafntefli.  Allar sóknaraðgerðir þeirra voru brotnar á bak aftur ýmist á miðjunni eða af vörninni.  Þreytan fór að segja til sín enda stelpurnar búnar að keyra á fullu allan leikinn.  Þegar tíu mínutur voru til leiksloka kom smá einbeitingarleysi í okkar stelpur og HK náði að jafna leikinn 1-1 eftir aukaspyrnu.  Sigurmarkið kom síðan er tvær mínutur lifðu leiks við mikinn fögnuð gestanna, eins og þær hefðu orðið meistarar.  Það var sárt að ná ekki að halda þetta út því stelpurnar áttu það svo fyllilega skilið, að minnsta kosti jafntefli.  Stelpurnar börðust gífurlega vel og oft brá fyrir mjög góðu spili þar sem breidd vallarins var vel nýtt og virkilega góðar sóknir sem maður hefði vilja sjá klárast með marki.  En eins og í nokkrum öðrum leikjum í sumar var heppnin ekki með okkur en kemur vonandi næsta sumar.  Að lokum: albesti leikurinn hjá stelpunum í sumar þrátt fyrir tap.

3. flokkur kvenna, 11 manna lið:
Keflavík - HK: 1 - 2 (Hildur Haraldsdóttir)
Stúlka leiksins: Ekki hægt að gera upp á milli svo góðar voru þær.

Elís Kristjánsson þjálfari skrifar