Fréttir

Knattspyrna | 12. ágúst 2005

Góður leikur gegn Mainz

1. FSV Mainz sigraði Keflavík 2-0 í 2. umferð forkeppni UEFA-keppninnar í Frankfurt í gærkvöldi.  Leikurinn fór fram á hinum glæsilega Commerzbank Arena-leikvangi fyrir framan um 18.000 áhorfendur.  Þar á meðal var nokkur hópur stuðningsmanna Keflavíkur með PUMA-sveitina fremsta í flokki.  Okkar menn geta verið sáttir við frammistöðuna; þeir sýndu mikla baráttu og léku saman sem liðsheild.  Það verður á brattann að sækja í seinni leiknum en ekkert annað að gera en að láta reyna á það!  Þó er ljóst að Mainz-liðið getur ekki verið öruggt fyrir þann leik enda tala þeir um að þeir verði að koma í seinni leikinn af fullum krafti til að vera öruggir áfram í keppninni.

Eins og reikna mátti með var Mainz-liðið mun sterkara enda um atvinnumannalið úr Bundesligunni að ræða.  Þeir náðu forystunni á 10. mínútu þegar Benjamin Auer skoraði fallegt skallamark sem erfitt var að ráða við.  Þjóðverjarnir sóttu meira allan leikinn en okkar menn vörðust vel, léku skipulega og beittu skyndisóknum.  Um miðjan seinni hálfleikinn munaði litlu að Guðmundur Steinars næði að jafna þegar hann átti hörkuskot sem markvörðurinn varði naumlega í stöngina.  Mainz-menn sneru vörn í sókn og fengu víti sem Christof Babatz skoraði örugglega úr.  Eftir það þyngdust sóknir heimamanna stöðugt en Ómar átti frábæran leik í markinu og kom í veg fyrir að mörkin yrðu fleiri.  Úrslitin eru sannarlega ásættanleg, okkar menn lögðu sig alla fram og höfðu gaman af að mæta sterku liði á glæsilegum leikvangi.

Eftir að flautað var til leiksloka þökkuðu okkar menn stuðningsmönnum sínum að sjálfsögðu fyrir stuðninginn.  En þeir létu ekki þar við sitja heldur tóku léttan dans á vellinum og fóru svo hringinn og þökkuðu áhorfendum fyrir leikinn við mikinn fögnuð þýsku áhorfendanna!  Þeir Mainz-menn voru mjög hrifnir af þessu framtaki og sögðust aldrei hafa séð lið þakka stuðningsmönnum andstæðinganna fyrir, sérstaklega eftir tapleik.  Heimamenn töluðu enda mikið um drengskap, leikgleði og góðan leik Keflavíkurliðsins og skemmtilega framkomu stuðningsmanna okkar.  Það verður því gaman að taka á móti þýska liðinu hér heima 25. ágúst og vonandi fjölmenna íslenskir og þýskir áhorfendur og sjá góðan leik.

Commerzbank Arena, 11 ágúst 2005
1. FSV Mainz 2 (Benjamin Auer 10., Christof Babatz víti 70.)
Keflavík 0

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Michael Johansson (Gestur Gylfason 69.), Guðmundur Mete, Baldur Sigurðsson, Issa Abdulkadir - Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Kenneth Gustavsson, Símun Samuelsen - Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Bjarni Sæmundsson, Ólafur Þór Berry, Atli Rúnar Hólmbergsson, Gunnar Hilmar Kristinsson, Ólafur Jón Jónsson
Gul spjöld: Guðmundur Steinarsson (59.), Michael Johansson (69.)

Dómari: Mustafa Culcu (Tyrklandi)
Aðstoðardómarar: Mustafa Emre Eyisoy og Muhittin Gurses
4. dómari: Cüneyt Cakir
Áhorfendur: Um 18.000


Hörður í baráttunni gegn einum leikmanna Mainz.