Fréttir

Knattspyrna | 8. ágúst 2004

Góður sigur á daufum Fylkismönnum

Keflavík vann 4-2 sigur á liði Fylkis í Landsbankadeildinni á Keflavíkurvelli í kvöld.  Okkar menn voru að leika vel og hefðu vel getað skorað fleiri mörk en bökkuðu fullmikið á köflum eins og stundum áður.  Fylkismenn náðu sér lítið á strik og voru andlausir.  Eftir leikinn er Keflavík í 5.-6. sæti deildarinnar ásamt KR en bæði lið hafa 18 stig.


Tóti í skallaeinvígi en hann fór
illa með Fylkismenn þessa vikuna.
(Mynd: Héðinn Eiríksson /
Víkurfréttir)


Einn Fylkismanna reynir að ná boltanum
af Scotty sem lagði upp eitt markanna.
(Mynd: Héðinn Eiríksson /
Víkurfréttir)

Leikurinn í kvöld fór frekar rólega af stað en um miðjan hálfleikinn fór að draga til tíðinda og þegar upp var staðið voru mörkin orðin sex.

1-0:
  Á 26 mínútu kom Þórarinn Kristjánsson okkar mönnum yfir með marki úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.  Guðmundur átti langa sendingu af vinstri kanti yfir á þann hægri.  Þar tók Þórarinn við boltanum, lék laglega á varnarmann og lék inn í teiginn þar sem varnarmaður steig fyrir hann og Garðar Örn Hinriksson dæmdi umsvifalaust víti.  Þórarinn tók vítið sjálfur og skoraði að öryggi.

1-1: Adam var ekki lengi í Paradís því mínútu eftir markið jöfnuðu gestirnir.  Þeir hófu þegar sókn og fengu horn.  Það var svo varnarjaxlinn Guðni Rúnar Helgason sem stökk hæst allra í teignum og skallaði boltann í markið án þess að Magnús fengi rönd við reist.

2-1: Á lokamínútu fyrri hálfleiks komumst við aftur yfir með fallegu marki.  Eftir hornspyrnu hreinsuðu Fylkismenn frá en boltinn var sendur út á vinstri kantinn á Scott, hann senda frábæra fyrirgjöf inn í markteiginn þar sem Haraldur Guðmundsson var enn staddur eftir hornið og hann skallaði boltann laglega í netið. 

3-1: Þórarinn var enn á ferðinni á 63. mínútu og skoraði þriðja mark sitt gegn Fylki á fjórum dögum.  Hann vann þá boltann af aftasta varnarmanni af miklu harðfylgi, lagði boltann vel fyrir og skoraði af miklu öryggi.

4-1: Eftir að gestirnir höfðu sótt framar kom fjórða markið eftir frábæra skyndisókn.  Stefán vann boltann og braust út úr vörninni.  Hann sendi glæsilega sendingu fram hægri kantinn á Þórarinn.  Hann sendi boltann fyrir markið þar sem Hörður Sveinsson kom á fleygiferð og skoraði.  Hörður var rétt kominn inn á sem varamaður og skoraði þarna með sinni fyrstu snertingu.

4-2: Fylkismenn löguðu aðeins stöðuna á 78. mínútu.  Eftir harða sókn kom fyrirgjöf frá hægri og Eyjólfur Héðinsson skallaði í netið.



Bói var öflugur á miðjunni og átti enn einn stórleikinn.
(Mynd: Héðinn Eiríksson /
Víkurfréttir)

Keflavíkurvöllur, 8. ágúst 2004
Keflavík 4 (Þórarinn Kristjánsson 26. víti, 62., Haraldur Guðmundsson 45., Hörður Sveinsson 73.)
Fylkir 2 (Guðni Rúnar Helgason 27., Eyjólfur Héðinsson 78.)

Keflavík (4-4-2): Magnús Þormar - Guðjón Antoníusson, Haraldur Guðmundsson, Stefán Gíslason, Ólafur Ívar Jónsson - Hólmar Örn Rúnarsson, Ingvi Rafn Guðmundsson, Jónas Guðni Sævarsson, Scott Ramsay (Hörður Sveinsson 73.) - Þórarinn Kristjánsson (Mehmetali Dursun 82.), Guðmundur Steinarsson (Zoran Ljubicic 46.)

Varamenn: Guðmundur Þórðarson, Sreten Djurovic
Gul spjöld: Haraldur Guðmundsson (41.), Þórarinn Kristjánsson (64.)

Dómari: Garðar Örn Hinriksson
Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Sævar Jónsson
Eftirlitsdómari: Eiríkur Helgason