Fréttir

Knattspyrna | 16. júní 2006

Góður sigur á FH

Keflavíkurstúlkur léku við lið FH í Landsbankadeild kvenna s.l. miðvikudag á Keflavíkurvelli.  Veðrið hefur ekki leikið við stúlkurnar þegar þær spila sína heimaleiki og var engin breyting nú, rigning og rok.

Annars fór leikurinn fram eins og við mátti búast, FH langneðst án stiga og hefur verið að tapa sínum leikjum stórt.  Keflavík pressaði stíft allan fyrri hálfleikinn með vindinn í bakið og var varla svo að Anna Rún Jóhannsdóttir kæmi við boltann en Anna var að byrja sinn fyrsta leik í meistaraflokki í Landsbankadeildinni.  Mikið efni þar á ferð enda á hún ekki langt að sækja markmannshæfileikana, bróðir hennar er Ómar Jóhannsson markmaður meistaraflokks karla.  Pressa Keflavíkur bar loks árangur þegar Lilja Íris Gunnarsdóttir fyrirliði skoraði með föstu skoti af um 30 metra færi, 1-0.  Áfram hélt pressa Keflavíkur en liðið átti í mesta basli með að nýta færi sín en á 45. mínútu skoraði Vesna Smiljovic gott mark með góðu skoti frá vítateigshorni.  Leikmenn hafa verið fegnir því að komast inn í búningsklefa í hálfleik í stöðunni 2-0.

Seinni hálfleikur var nánast spegilmynd fyrri hálfleiks þar sem pressa Keflavíkur var mikil og strax á 46. mínútu skoraði Nína Ósk Kristinsdóttir þriðja mark Keflavíkur.  Átti Nína eftir að koma mikið við sögu það sem eftir lifði leiks.  Á 56. mínútu skoraði Nína aftur úr vítaspyrnu og breytti stöðunni í 4-0.  Á 66. mínútu skoraði Nína sitt þriðja mark með góðu skoti og sitt fjórða með góðu skoti í teig eftir að hafa prjónað sig í gegnum vörn FH og kom Keflavík í 6-0.  Á síðustu mínútu leiksins fengu FH-stúlkur vítaspyrnu eftir að brotið var einum leikmanni þeirra innan vítateigs.  Úr vítinu skoraði Dragana Stojanovic og breytti stöðunni í 6-1, sem urðu lokatölur leiksins.

Sigurinn var góður og stigin þrjú en mótstaðan var ekki mikil hjá slöku liði FH.  Næsti leikur Keflavíkur verður gegn Valsstúlkum fimmtudaginn 22. júní á Valbjarnarvelli.

Lið Keflavíkur: Anna Rún, Inga Lára, Linda (Birna Marín 82.), Elísabet Ester, Ólöf Helga (Eva 67.), Guðný Petrína, Lilja Íris, Karen Penglase, Danka, Nína Ósk, Vesna (Donna 89.)
Varamenn: Þóra Reyn, Karen Sævars, Sonja Ósk, Thelma Dögg.

ÞÞ

Myndir:
Jón Örvar Arason