Góður sigur á Fram
Keflvíkingar kræktu í þrjú dýrmæt stig í Pepsi-deild karla þegar þeir unnu góðan og sanngjarnan sigur á Fram með marki frá Jóhanni Birni Guðmundssyni. Keflvíkingar eru því komnir með 9 stig í deildinni og eru einu stigi frá toppliðum Fylkis og KR. Liðið hefur ekki fengið á sig mark í þremur heimaleikjum sínum til þessa, gegn FH, Val og Fram. Fyrir leikinn var Kristjáni Guðmundssyni þjálfara afhentur blómvöndur frá Knattspyrnudeildinni fyrir 100 leiki fyrir félagið í opinberum leikjum.
Fyrri hálfleikur var frekar rólegur þó að Keflvíkingar hafi verið sterkari aðilinn allan tímann. Framarar lágu mjög aftarlega og áttu eitt hálffæri í fyrri hálfleik og ekki söguna meir. Keflavík fékk tvö mjög góð færi; Jón Gunnar skallaði í slá á 22. minútu og Magnús Sverrir komst í dauðafæri undir lok hálfleiksins en skaut yfir markið af stuttu færi. Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar Jóhann Birnir átti gott skot sem Hannes varði vel. Sigurmarkið kom svo á 54. minútu þegar Jóhann tók aukaspyrnu langt fyrir utan teig og boltinn sigldi yfir alla og í mark Framara. Eftir markið færðu Framarar sig aðeins framar og okkar menn bökkuðu aðeins og voru staðráðnir í að halda sínu. Mikil barátta var í leiknum og á 86. minútu var Jóni Gunnari vikið af leikvelli með sitt annað gula og þar með rautt. Vörnin stóð sig vel sem og Lasse í markinu sem var öruggur allan leikinn. Góður sigur í höfn og ljúf þrjú stig í safnið.
Keflavík: Lassse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hóm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Magnús Sverrir Þorseinsson, Símun Samuelsen, Jón Gunnar Eysteinsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Einar Orri Einarsson77.), Haukur Ingi Guðnason (Magnús Þórir Matthíasson 54.), Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bojan Stefán Ljubicic, Magnús Þór Magnússon, Tómas Karl Kjartansson, Sigurður Gunnar Sævarsson.
Dómari: Garðar Örn Hinriksson
Áhorfendur: 878.
Kristján var í viðtali á fótbolta.net og tökum við okkur það leyfi að birta það hér.
Kristján Guðmundsson var virkilega sáttur við sigurinn og stigin þrjú.
,,Ég er virkilega sáttur með að hafa unnið leikinn og náð þrem góðum stigum í hús. Leikurinn var mjög læstur og lokaður og liðin pössuðu það að það séu engar langar sendingar á bak við þá. Framaranir loka svæðunum mjög vel og er nánast með allt sitt lið á sínum vallarhelming og það er erfitt að spila þannig á móti þeim, því að ef þú kemur ekki marki á þá fljótlega að þá er það þungt en þá þarf bara að sýna sömu þolinmæði og þeir."
Haukur Ingi Guðnason átti fínan leik í dag en var tekinn útaf snemma í seinni hálfleik.
,,Haukur Ingi er bara orðinn þreyttur,búið að vera mikið álag. Fjórir leikir á stuttum tíma og við eru kannski búnir að spila honum aðeins meira en góðu hófi gegnir en hann verður orðinn góður á fimmtudaginn. Við verðum bara að fara vel með hann, hvíla hann vel á milli leikja og kannski ekki alltaf að láta hann spila eins mikið eins og hann hefur verið að gera."
Lasse Jörgensen markmaður Keflvíkinga er búinn að standa sig vel þrátt fyrir að hafa komið til liðs við liðið aðeins skömmu fyrir mót. En Lasse var maður leiksins í dag.
,,Hann er búinn að standa sig mjög vel og við erum búnir að vinna markvisst í því að láta hann og Alen Sutej (varnarmaður Keflvíkinga) vinna saman í öllu því sem við gerðum á æfingunum þannig að þeir myndu kynnast sem fyrst."
Keflvíkingar eru komnir með 9 stig í hús og hljóta því að vera með augun á titlinum.
,,Við bara fögnum hverjum einasta sigri og tökum bara einn leik í einu. Það er bara ekki hægt að tala um atlögu að titlinum þegar bara fjórar umferðir eru búnar."
Jói fagnar sigurmarkinu.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)