Fréttir

Knattspyrna | 18. apríl 2007

Góður sigur á Fylki í Árbænum

Keflavíkurstúlkur sótti Fylki heim í gær í A-deild Lengjubikarsins og fóru með góðan sigur 0-3.  Keflavíkurliðið er ný komið úr 10 daga æfingarferð í Tyrklandi og er greinilega í fínu formi.

Fyrri hálfleikur var frekar daufur og virkuðu Keflavíkustúlkur þreyttar, væntanlega hefur æfingarferðin með stífu ferðalagi og æfingum setið í stelpunum.  Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik.  Porca þjálfari hefur lesið vel yfir stelpunum og setti Fanney Þórunni Kristinsdóttur inn á og breytist leikur liðsins til mikilla muna.  Liðið tók strax öll völd og eftir aukaspyrnu inn í teig Fylkis datt boltinn til Lilju Gunnarsdóttur sem skoraði með góðu skoti, 0-1.  Meiri hraði og áræðni var komð í lið Keflavíkur.  Eftir að Danka Padovac vann boltann á miðjunni sendi hún inn fyrir vörn Fylkis og þar sem Guðný Þórðardóttir stakk vörn Fylkis af og skoraði örugglega, 0-2.  Þriðja mark Keflavíkur kom eftir gott spil leikmanna Keflavíkur.  Boltinn endaði hjá Fanneyju Kristins sem lék á leikmann Fylkis og sendi góðan bolta fyrir markið þar sem Karen Sævarsdóttir mætti fyrst á boltann og skoraði með góðu skoti, 0-3.  Og öruggur og góður sigur Keflavíkur á Fylkisliðinu sem hafði í leiknum á undan sigrað KR 4-1.

Mynd: Karen Sævarsdóttir skoraði eitt af mörkum Keflavíkur.

Keflavíkurliðið er greinilega í góðum málum þó svo að endurnýjunin hafi verið mikil undanfarið.  Mikla athygli vakti framistaða Fanneyjar Kristinsdóttur sem er á seinna ári í 3. flokki, en hún er án efa leikmaður sem á mikla framtíð fyrir sér og vonandi sjáum við meira til hennar í sumar.  Heimir Porca þjálfari var mjög ánægður með Fanney í þessum leik og taldi hana hafa sýnt mikinn þroska miðað við aldur og gott að vita að Keflavík á mikið af leikmönnum sem eiga framtíðina fyrir sér.

Næsti leikur Keflavíkur í Lengjubikarnum verður n.k. laugardag á KR-velli kl.16:00.  Keflavík á mjög góða möguleika á því að komast í úrslitakeppni A-deildar Lengjubikarsins þetta ári.

Lið Keflavíkur: Dúfa, Ester (Bryndís), Björg Ásta, Lilja, Anna, Sonja (Fanney), Danka, Justina, Karen, Guðný, Vesna.
Varamenn: Jelena, Rebekka.

ÞÞ