Fréttir

Knattspyrna | 3. ágúst 2006

Góður sigur á Stjörnunni

Keflavík og Stjarnan áttust við í 11. umferð Landsbankadeildar kvenna í gærkveldi.  Leiknum lauk með 4-1 sigri Keflavíkur í skemmtilegum leik þar sem bæði lið lögðu mikið upp úr sóknarleik.  Staðan í hálfleik var 1-0.

Fyrri hálfleikur hófst með pressu frá Stjörnunni og strax á 3. mínútu bjargaði Þóra Reyn Rögnvaldsdóttir mjög vel eftir að hafa kýlt frá fyrirgjöf inn í teig og varið svo skot frá Stjörnuleikmanni út við stöng í beinu framhaldi.  Vel gert hjá Þóru sem átti mjög góðan leik og var hún mjög örugg í öllum sínum aðgerðum.  Fyrsta mark leiksins skoraði Nína Ósk Kristinsdóttir á 14. mínútu eftir góða stungusendingu frá Donnu Cheyne, 1-0.  Keflavíkurliðið vann sig betur inn í leikinn eftir því sem á leið.  Eftir nokkrar vel útfærðar sóknir beggja liða þar sem Stjarnan átti skot í stangir Keflavíkurliðsins og Stjarnan bjargaði á marklínu góðu skoti Guðnýjar Þórðardóttur skoraði Nína Ósk sitt annað mark á 50. mínútu af stuttu færi, 2-0.  Þetta var 20. mark Nínu í sumar í Landsbankadeildinni og er hún næst markahæst.  Keflavíkurliðið var komið með ágætis tök á leiknum og gekk boltinn vel á milli manna og sköpuðu þær sér nokkur góð marktækifæri sem ekki nýttust.  Á 69. mínútu var skipting hjá Keflavík og inn á kom Karen Sævarsdóttir, efnileg stelpa úr 2. flokki.  Hún var aðeins búin að vera inn á í 10 sekúndur þegar hún skoraði glæsilegt mark með skalla eftir hornspyrnu, 3-0.  Vel gert hjá Karen, hennar fyrsta mark í efstu deild og það ekki af verri endanum.  Ekki voru Keflavíkurstúlkur hættar og á 76. mínútu kom Linda O'Donnell Keflavík í 4-0 með góðu skoti efst í markhornið.  Öruggur sigur Keflavíkur staðreynd.  Stjörnustúlkur settu sitt mark á 94. mínútu þegar Björg Gunnarsdóttir skoraði.  Og þar við sat.

Þessi lið eru að kljást um fjórða sætið og var sigurinn því kærkominn fyrir Keflavík sem var 6 stigum á eftir Stjörnunni fyrir þennan leik.  Góður leikur og öruggur sigur Keflavíkurliðsins.

Næsti leikur er gegn FH á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði 11. ágúst kl.19:15.

Keflavík: Þóra Reyn, Inga Lára, Linda (Eva 77.), Elísabet Ester, Guðný Petrína, Lilja Íris, Karen Penglase (Karen Sævars 69.), Danka, Donna, Vesna, Nína
Varamenn: Anna Rún, Guðbjörg, Birna Marin, Thelma

ÞÞ

Myndir: Jón Örvar Arason


Nína Ósk kemur Keflavík yfir.


Marki Nínu fagnað.


Linda O'Donnell umkringd Stjörnustúlkum.


Hætta við mark Stjörnunnar.


Nína Ósk skorar sitt annað mark og kemur Keflavík í 2-0.


...og seinna marki Nínu fagnað.


Karen Sævars kemur Keflavík í 3-0...
og var aðeins búin að vera inn á í 10 sekúndur!


Linda O'Donnell skorar fjórða mark Keflvíkur, 4-0.


Guðný Þórðar, besti maður vallarins (að mati ljósmyndara).


Hætta við mark Keflavíkur en Þóra Reyn ver mjög vel.