Góður sigur á Þór/KA
Keflavíkurstúlkur hófu leiktíðina í Landsbankadeildinni með stórum sigri á Þór/KA, 7-0. Leikurinn fór fram s.l. mánudag á góðum aðalvelli okkar.
Eftir 11 mínútna leik voru Keflavíkurstúlkur búnar að skora þrjú mörk. Danka Padovac skoraði á 2. mínútu, Bryndís Bjarnadóttir á þeirri 9. og Guðný Þórðardóttir á 11. mínútu. Keflavíkurliðið hafði mikla yfirburði í þessum leik og voru þolinmóðar í uppbyggingu sókna sinna gegn fjölmennri vörn Þórs/KA. Í seinni hálfleik drógu Keflavíkurstúlkur aðeins úr ferðinni og gestirnir náðu nokkrum ágætum sóknum og bjargaði Jelena Petrovic mjög vel eftir gott skot utan af velli. Björg Magnea Ólafs skoraði fjórða mark liðsins á 67. mínútu. Fimmta markið gerði Vesna Smilijovic á 68. mínútu og Danka Padovac gerði síðan sitt annað mark á 77. mínútu og kom Keflavík í 6-0. Lokaorðið átti Guðný Þórðardóttir sem gerði sitt annað mark úr víti sem dæmt var á Þór/KA eftir að markvörður þeirra braut á Guðnýju.
Góður og sannfærandi sigur í fyrsta leik og margt gott í leik liðsins. Gaman er að geta þess að lið Keflavíkur er með meðalaldur upp á 21 ár. Liðið er skipað reynslumiklum stelpum og svo eru ungar stelpur sem hafa verið að koma sterkar inn í hópinn undanfarin ár. Í þessum leik léku Justyna Wroblenska og Bryndís Bjarnadóttir sinn fyrsta leik í efstu deild kvenna. Þær eru báðar á sínu fyrsta ári í 2. flokki og óskum við þeim til hamingju með þennan árangur og glæsilegt hjá Bryndísi að skora í sinum fyrsta leik.
Lið Keflavíkur: Jelena, Anna (Justyna), Björg Ásta, Lilja, Donna, Eva (Birna), Danka, Björg Magnea, Bryndís (Birna), Guðný, Vesna.
Varamenn: Dúfa, Helena, Elísabet Ester, Karen Sævars.
Myndir: Jón Örvar Arason
ÞÞ
Vesna gefur ekkert eftir.
Eva í návígi.
Guðný tekst á við norðanstúlkur.
Björg Magnea Ólafs.
Guðný umvafin varnarmönnum gestanna.
Sótt að marki Keflavíkur.
Björg á fleygiferð.
Björg Magnea skorar fjórða markið.
Og ástæða til að fagna því.
Rebekka Gísladóttir.
Vígalegur varnarveggur.
Guðný Petrína skorar örugglega úr víti, sjöunda mark leiksins.