Góður sigur gegn Norðanstúlkum
Keflavík spilaði loks í föstudagskvöld eftir ótrúlega langt stopp eða nærri þrjár vikur. En loksins var komið að því og stelpurnar tóku á móti Tindastól/Neista á glæsilegum Sparisjóðsvellinum í Keflavík. Keflavík var sterkara liðið allan tímann en gekk illa að nýta færin. Þær náðu þó forystunni á 29. mínútu þegar Sigurrós Eir skoraði og eftir nokkur góð færi náði Nína Ósk að bæta við öðru marki á 43. mínútu. Staðan í hálfleik 2-0.
Síðari hálfleikur bauð upp á það sama. Keflavíkurstúlkur sóttu en náðu ekki að nýta færin og hélt besti leikmaður gestanna, markvörðurinn Sigurbjörg Þ. Marteinsdóttir, sínu liði inn í leiknum með stórgóðum leik. En það var svo á 84. mínútu að Keflavík gerði út um leikinn með þriðja markinu. Eftir aukaspyrnu og darraðardans í teignum náði Fanney að skora og tryggja öruggan sigur Keflavíkur, 3-0.
-
Jóhanna Kristinsdóttir og Heiðrún Þorsteinsdóttir komu inn undir lok leikins og léku báðar sinn fyrsta leik með meistaraflokki. Jóhanna er 16 ára en Heiðrún er 15 ára.
-
Sigurrós Eir Guðmundsdóttir kom Keflavík yfir í leiknum og skoraði þar með sitt fyrsta mark fyrir félagið. Sigurrós verður 17 ára síðar í þessum mánuði en hún hefur þegar leikið 14 deildarleiki fyrir Keflavík og tvo bikarleiki.
-
Fyrirliðinn Anna Rún Jóhannsdóttir lék sinn 50. deildarleik fyrir Keflavík. Þar af eru 42 í efstu deild en 8 í þeirri næstefstu. Hún hefur einnig leikið sjö bikarleiki. Anna Rún hóf feril sinn með meistaraflokki sem markvörður en leikur nú í vörninni.
Heiðrún Sjöfn Þorsteinsdóttir kemur inn á í sínum fyrsta meistaraflokksleik.
Fanney skorar 3ja markið.