Góður sigur gegn Víkingum
Keflavík vann góðan sigur þegar liðið mætti Víkingum frá Ólafsvík í Lengjubikar kvenna í Reykjaneshöllinni. Lokatölur urðu 4-2 þar sem Íris Björk Rúnarsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu og Heiðrún Sjöfn Þorsteinsdóttir gerði eitt mark. Elín Ósk Jónasdóttir og Lovísa Margrét Kristjánsdóttir minnkuðu muninn fyrir gestina undir lok leiksins.
Keflavík tefldi fram ungu liði í leiknum og m.a. léku þrjár stúlkur úr 3. flokki. Það voru þær Ljiridona Osmani, Una Margrét Einarsdóttir og Marín Rún Guðmundsdóttir en þær eru einmitt á myndinni með fréttinni, frá vinstri. Una og Marín voru að leika sinn fyrsta leik með meistaraflokki en Ljiridona lék gegn ÍA á dögunum.
Það er skammt stórra högga á milli hjá kvennaliðinu en næsti leikur er gegn ÍR í Reykjaneshöllinni á miðvikudaginn kl. 19:00.