Fréttir

Knattspyrna | 11. júní 2005

Góður sigur hjá 3. flokki

Í dag tók 3. flokkur kvenna á móti liði ÍBV á Iðavöllum og báru Keflavíkustúlkur sigur úr býtum með fimm mörkum gegn tveimur.  Leikurinn byrjaði nokkuð vel af okkar hálfu og fengum við fín færi sem ekki nýttust.  Það var aðeins tímaspursmál hvenær knötturinn færi í mark gestanna og á 16. mínútu skallaði Helena Rós í netið eftir góða fyrirgjöf frá Birnu Marín.  Mínútu seinna var Helena aftur á ferðinni, nú eftir fyrirgjöf frá Karen.  Það var svo Karen sem setti þriðja markið eftir sendingu frá Helenu.  Tveimur mínutum fyrir leikhlé minnkuðu gestirnir muninn, staðan í leikhléi 3-1.

Stelpurnar voru ekki eins einbeittar í seinni hálfleik og í þeim fyrri.  Eyjastúlkur komu líka ákveðnari til leiks en við vorum samt með yfirhöndina á vellinum.  Karen bætti við fjórða markinu á 54. mínútu og Helena setti það fimmta á þeirri 67.  Þremur mínutum fyrir leikslok skoruðu Eyjastúlkur annað mark sitt eftir aukaspyrnu sem hreinsuð var burt en við gleymdum að hlaupa út og skilja þær eftir fyrir innan í rangstöðu.  Lokatölur 5-2. 

Stelpurnar voru að spila virkilega góðan bolta, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem boltinn gekk vel manna á milli.  Það var ekkert verið að hanga á boltanum að óþörfu eins og oft vill gerast.  Mörkin hefðu getað orðið fleiri með heppni sem þarf svo oft að fylgja með til að allt gangi upp, t.d. áttu stelpurnar þrjú skot í marksúlur gestanna.  En takmarkið fyrir þennan leik var að ná í þrjú stig, það tókst og það eru einmitt stigin sem telja þegar leik lýkur.

3. flokkur, Keflavík - ÍBV: 5-2 (Helena Rós Þórólfsdóttir 3, Karen Sævarsdóttir 2)
Keflavík:
Anna Rún, Bergþóra, Helga, Rebekka, Justyna, Birna Marín, Eva, Helena Rós, Sonja, Karen Sævars, Andrea, Jóna, Karen Herjólfs, Ingibjörg, Hildur og Elísabet.