Fréttir

Knattspyrna | 22. júní 2005

Góður sigur hjá 3. flokki

Stelpurnar í 3. flokki gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Íslandsmeistara Breiðabliks á Smárahvammsvelli í gær, 2-1.  Það var augljóst strax í upphafi leiks að stelpurnar voru klárar og vel stemmdar í leikinn.  Ekki byrjaði leikurinn þó vel fyrir okkur því strax á fimmtu mínútu meiddist Elísebet illa og var haldið í fyrstu að hún væri brotin.  Læknir sem var á staðnum kíkti á hana og tjáði hann okkur að hún hefði tognað ansi illa.  Þetta atvik virtist hleypa enn meiri eldmóð í stelpurnar og var baráttan alveg gríðarleg hvar sem var á vellinum.  Breiðabliksstelpur fengu ekki nokkurn frið til að byggja upp það spil sem þær eru þekktar fyrir.  Um miðjan hálfleikinn náðum við forystu með marki frá Helenu Rós.  Það var þó skammgóður vermir því heimastúlkur náðu að jafna nánast í næstu sókn með kolólölegu marki.  Hár bolti kom inn í vítateig okkar og fylgdi ein Blikastúlkan inn.  Anna markvörður virtist hafa þennan bolta sem var í höfuðhæð en ein Blikastelpan lyfti löppinni svo hátt upp og fyrir framan andlitið á Önnu að hún gat talið takkana undir skónum hjá henni.  Blikastúlkan náði boltanum og eftirleikurinn var auðveldur og staðan orðin 1-1.

Áfram hélt baráttan í seinni hálfleik og fengu bæði lið ágætis færi en markmenn liðanna stóðu vaktina vel.  Markvörður Blika kom þó ekki í veg fyrir að við næðum forystunni á ný þegar Karen fylgdi stungusendingu vel eftir og náði að læða boltanum í vinstra hornið.  Breiðablik fór nú að fjölga sóknarmönnum og í leiðinni að fækka í vörninni til að freista þess að jafna leikinn.  Við þessar breytingar varð meiri pressa á okkur varnarlega og heimastúlkur fengu færi sem ekki nýttust að þessu sinni.  Að sama skapi náðum við að verjast þessari pressu nokkuð vel og fengum í leiðinni nokkrar skyndisóknir sem við hefðum átt að nýta betur.  Stelpurnar héldu haus og fögnuðu góðum og verðskulduðum sigri á liði Breiðabliks.  Liðið í heild sinni á hrós skilið fyrir góðan leik og baráttu sem þær sýndu í þessum leik.  Eins sönnuðu þær að allt er hægt í knattspyrnu ef vilji og hugur fylgjast að.

3. flokkur
Breiðablik - Keflavík: 1-2 (Helena Rós Þórólfsdóttir, Karen Sævarsdóttir)

Keflavík: Anna, Bergþóra, Elísabet, Rebekka, Helga, Eva(F), Hildur, Helena, Birna, Karen S., Andrea, Jóna, Karen H., Fanney, Sigurbjörg, Zohara.