Fréttir

Knattspyrna | 6. júní 2004

Góður sigur hjá 3. flokki kvenna

Stelpurnar í 3. flokki sóttu Reyni/Víði heim á föstudaginn og var spilað í fínu veðri á góðum velli þeirra Víðismanna.  Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og ekki voru nema fimm mínutur liðnar af leiknum þegar staðan var orðin 1-0 fyrir okkar stelpur.  Eftir hornspyrnu frá Evu varð mikill atgangur inn í teig þar sem Birna Marín náði að reka endahnútinn og stýra knettinum í netið.  Gleðin stóð ekki lengi því að á 10. mínútu náðu heimamenn að jafna leikinn; eftir stungusendingu komst Guðbjörg ein í gegn og átti ekki í vandræðum að renna boltanum framhjá Önnu í markinu.  Það sem eftir var hálfleiks einkenndist leikur okkar of mikið af að koma upp miðjuna þar sem að heimastelpur voru fastastar fyrir, staðan í hléi 1-1.

Í seinni hálfleik komu stelpurnar mjög ákveðnar til leiks.  Þær réðu algerlega gangi leiksins, unnu nánast öll návígi á miðsvæðinu og fóru að nota kantana mun meira.  Þessi ákveðni bar fljótt árangur því að á 39. mínútu tók Eva eina af sínum mörgum hornspyrnum og Helena Rós skallaði knöttinn í netið, 2-1.  Markið virtist létta svolítið á stelpunum því boltinn fór að ganga betur á milli leikmanna og að sama skapi fengu þær færi.  Á 55. mín skoraði Andrea 3-1; eftir að hafa unnið boltann tók hún á rás inn í teig með varnarmann í bakinu og náði af miklu harðfylgi að setja boltann í vinstra hornið.  Fjórða og síðasta mark þessa leiks skoraði Hildur á 61. mínútu þegar hún komst ein á móti markmanni eftir laglega sendingu frá Sonju og stýrði knettinum af öryggi í netið. 

Ekki er hægt að segja að þetta hafi verið góður leikur hjá stelpunum þó sigur hafi unnist og þá sérstaklega ekki fyrri hálfleikur.  En fyrir öllu er þó að ná í þessi þrjú stig sem barist er um.  Nú hafa stelpurnar spilað tvo leiki í Íslandsmótinu og unnið þá báða.

3. flokkur kvenna:
Reynir/Víðir - Keflavík: 1-4 (Birna Marín Aðalsteinsdóttir, Helena Rós Þórólfsdóttir, Andrea Frímannsdóttir, Hildur Haraldsdóttir)

Keflavík: 
Anna Rún Jóhannsdóttir, Ingibjörg Sesselja Björnsdóttir (Bergþóra Sif Vigfúsdóttir), Justyna Wróblewska, Rebekka Gísladóttir, Elísabet Guðrún Björnsdóttir, Eva Kristinsdóttir fyrirliði, Sonja Ósk Sverrisdóttir (Birna Ásgeirsdóttir), Hildur Haraldsdóttir (Sigrún Guðmundsdóttir), Birna Marín Aðalsteinsdóttir (Guðbjörg Lára Guðjónsdóttir), Andrea Frímannsdóttir, Helena Rós Þórólfsdóttir.

Stúlka leiksins: Rebekka Gísladóttir.

Elís Kristjánsson. þjálfari