Góður sigur hjá stelpunum
Stelpurnar í 3. flokki tóku á móti Reyni/Víði í gærkvöldi á Iðavöllum og sigruðu 5-1.
Gestirnir mættu baráttuglaðar til leiks og nú skyldi verða tekið á nágrönnunum frá Keflavík; leikur þeirra bygðist á þéttri varnarlínu sem erfitt var að brjóta á bak aftur og við féllum í þá gildru í fyrri hálfleik að leika þann bolta sem að þær vildu og hentaði þeim betur. Eins og áður segir var erfitt að brjóta þær á bak aftur en það tókst þó á 27. mínútu er Birna Marín sem nú lék sem hægri bakvörður geystist upp allan völlinn. Hún lék upp að endamörkum, kom með fyrirgjöfina og Helena Rós mætti á staðinn og vippaði boltanum laglega í markið, mjög vel að þessu staðið hjá þeim. Reyndist þetta eina markið í fyrri hálfleik.
Í seinni hálfleik var ákveðið að nú skyldum við reyna að rífa okkur upp úr þessari spilamensku og reyna að komast á bak við vörnina hjá þeim og skapa okkur þannig færi. Ekki var liðin nema mínúta af seinni hlutanum er Helena Rós skoraði sitt annað mark. Hún fékk boltann út á vinstri kant, tók á rás og lét síðan skotið vaða á markið og boltinn söng í netinu. Fjórum mínútum seinna eða á þeirri 40. kom næsta mark, eftir hornspyrnu frá Evu barst boltinn út í teig þar sem Helena Rós var mætt og fullkomnaði enn eina þrennu sína með því að þrykkja tuðrunni í netið. Fjórða markið kom mínutu seinna er stelpurnar unnu boltann eftir að gestirnir tóku miðju, endaði sú sókn með skoti á markið sem markvörðurinn varði með því að slá knöttinn út og beint fyrir framan fætur Karenar Sævars sem þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að skora. Fimm mínutur liðnar af seinni hálfleik og stelpurnar búnar að skora þrjú mörk. Gestirnir áttu sín færi og meðal annars fengu þær dæmda aukaspyrnu á okkar vallarhelming sem var vel tekin. Anna Rún gerði frábærlega í að verja með því að slá knöttinn í slá og út þar sem að gestirnir fylgdu á eftir og skoruðu en rangstæða dæmd réttilega því tvær voru mættar inn fyrir er skotið var látið ríða af. Gestirnir náðu að skora á 49. mínútu, Hanna María átti glæsilegt skot fyrir utan teig og fór boltinn í þverslána niður og inn algjörlega óverjandi fyrir Önnu í markinu. Eva Kristins skoraði síðan fimmta og síðasta markið í þessum leik á 56.mínútu með skoti af um tuttugu metra færi sem markvörðurinn réði ekki við. Stelpurnar hafa nú spilað fjóra leiki og unnið þá alla með markatöluna 27-3 og hefur Helena Rós gert 11 mörk í þessum leikjum.
3. flokkur kvenna:
Keflavík - Reynir/Víðir: 5-1 (Helena Rós Þórólfsdóttir 3, Karen Sævarsdóttir, Eva Kristinsdóttir)
Keflavík:
Anna Rún Jóhannsdóttir, Birna Marín Aðalsteinsdóttir (Guðmunda Gunnarsdóttir), Justyna Wróblewska, Rebekka Gísladóttir, Bergþóra S. Vigfúsdóttir (Laufey Ósk Andrésdóttir), Helena Rós Þórólfsdóttir, Sonja Sverrisdóttir (Sara Guðjónsdóttir), Eva Kristinsdóttir, Hildur Haraldsdóttir (Sigrún Guðmundsóttir), Karen Sævarsdóttir (Fanney Þ. Kristinsdóttir), Andrea Frímannsdóttir.
Stúlka leiksins: Helena Rós Þórólfsdóttir.
Elís Kristjánsson. þjálfari