Fréttir

Knattspyrna | 12. maí 2009

Góður sigur í fyrsta leik

Keflavík sigraði Íslandsmeistara FH 1-0 í sannkölluðum stórleik fyrstu umferðar Pepsi-deildarinnar.  Sigurinn var sanngjarn og er þetta annað árið í röð sem við vinnum ríkjandi meistara í fyrsta leik.  Í fyrra var það 5-3 sigur á Val en nú var engin markaveisla í boði.  Það var eitt mark sem réði úrslitum og það var enginn annar en fyrirliðinn okkar, Hólmar Örn Rúnarsson, sem skoraði á 54. mínútu.  Markið kom eftir snilldarsprett frá Símun á hægri vængnum og Bói skoraði örugglega gegn annars góðum markverði FH, Daða Lárussyni.

Veðrið var ekki gott þegar leikurinn byrjaði og aðstæður frekar erfiðar.  Völlurinn þungur og blautur og vindur þó nokkur.  Keflavíkurliðið byrjaði leikinn ágætlega en mikið var um miðjuþóf í byrjun.  Ekkert markvert gerðist en það breyttist á 20. mínútu þegar Davíð Þór Viðarsson FH-ingur var rekinn í bað fyrir að toga í Hauk Inga.  Haukur var kominn einn inn fyrir vörn FH-inga og ekkert annað en rautt spjald í boði.  Aukaspyrna rétt fyrir utan teig sem Daði varði frábærlega vel frá Hauki Inga.  Liðin stóðu eftir þetta í mikilli miðjubaráttu og fátt um fína drætti og staðan í hálfleik 0-0.
 
Seinni hálfleikur var ekki nema níu mínútna gamall þegar Hólmar Örn skoraði eins og getið var hér að ofan.  FH skellti hinum snjalla Söderlund inn á og blés til sóknar.  Það stóð ekki lengi því Alen og Bjarni, ásamt Gaua og Brynjari, stigu varla feilspor í vörninni.  Keflvíkingar vörðust vel og áttu hættulegar skyndisóknir.  Leikurinn var fyrst og fremst barátta um miðjuna án þess liðin sköpuðu sér einhver færi að kalla.  Þó er vert að minnast á brot Söderlund á Guðjóni Árna á 80. mínútu en það minnti óþægilega mikið á Eyjarnar 2005.  Báðir leikmennirnir voru heppnir, Guðjón að brotna ekki og Söderlund að sleppa bara með það gula.  Leikurinn fjaraði svo út án þess að liðin sköpuðu sér nokkuð að ráði. Sanngjarn sigur í höfn og fyrstu stigin í hús.

Nýju leikmennirnir okkar komu virkilega vel út í leiknum.  Þeir Alen og Bjarni stigu ekki feilspor í leiknum og voru traustir í vörninni.  Lasse var frábær í markinu og virkilega ánægjulegt að sjá þennan snjalla markmann eiga allt sem að markinu kemur; flottur markvörður.  Svo er það Haukur Ingi, þessi snjalli leikmaður okkar, sem óhætt er að velja mann leiksins.  Hann átti stórleik og baráttan í þessum dreng er ótrúleg.  Lýsingarorðin um Hauk Inga eru svo mörg að við verðum að láta hér staðar numið, höfum ekki endalaust pláss...  Takk fyrir leikinn, Haukur Ingi, og vertu velkominn heim!  Að lokum óskum við leikmönnum liðsins til hamingju með sigurinn, einnig Kristjáni og hans liðstjórn fyrir sitt framlag og sem ein flottasta og best klædda liðstjórn landsins!

Keflavík: Lasse Jörgensen - Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Alen Sutej, Brynjar Örn Guðmundsson - Simun Samuelsen, Hólmar Örn Rúnarsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Jóhann Birnir Guðmundsson - Magnús Sverrir Þorsteinsson (Einar Orri Einarsson 90.), Haukur Ingi Guðnason (Hörður Sveinsson 67.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Bojan Ljubicic, Magnús Þór Magnússon, Magnús Þórir Matthíasson og Tómas Kjartansson.
Dómari: Kristinn Jakobsson.
Áhorfendur: 1272.
 


Kristinn lyftir því rauða og Davíð Þór á leið í bað.


Lasse var öflugur í sínum fyrsta leik.