Fréttir

Knattspyrna | 1. ágúst 2006

Góður sigur í grannaslag

Keflavík vann góðan sigur á Grindavík í 12. umferð Landsbankadeildarinnar á Keflavíkurvelli.  Tvö frábær mörk tryggðu 2-0 sigur í ágætum leik  að viðstöddum fjölda áhorfenda sem fylgdust með skemmtilegum leik í frábæru knattspyrnuveðri.  Eins og í undanförnum leikjum léku okkar menn prýðilegan fótbolta og höfðu gaman af því sem þeir voru að gera.  Auk þess var baráttan og vinnslan til fyrirmyndar og þegar þetta fer allt saman lætur árangurinn ekki á sér standa.  Eftir leikinn er Keflavík í 3. sæti í deildinni sem er reyndar svo jöfn að staða liða gjörbreytist eftir hverja einustu umferð.

Keflavík byrjaði leikinn af krafti og sóttu töluvert að marki gestanna.  Þrátt fyrir ágæt tilþrif gekk ekki sérstaklega vel að skapa opin færi.  Nokkur góð skot litu þó dagsins en markmaður Grindvíkinga, Colin Stewart, sá hins vegar við þeim flestum.  Pilturinn sá reyndist okkur erfiður og hélt sínum mönnum hvað eftir annað inn í leiknum með frábærri markvörslu.  Hann sýndi m.a. ótrúleg viðbrögð þegar hann varði skot frá Hallgrími af örstuttu færi eftir hættulega hornspyrnu.  Besta færi Grindavíkur fékk markahrókurinn Jóhann Þórhallsson þegar hann slapp í gegnum vörnina og lék á Ómar sem var kominn út úr teignum.  Hinn hálf-tyrkneski Guðmundur Mete sýndi hins vegar mikið snarræði og komst fyrir skot Jóhanns.  Eftir því sem leið á hálfleikinn þyngdist sókn Keflavíkurliðsins og undir lok hans kom loksins fyrsta markið.  Eftir þunga pressu fékk liðið hornspyrnu frá hægri.  Guðmundur Steinars tók hornið og Þórarinn skallaði boltann í netið.  Vel að verki staðið hjá þeim félögum; hnitmiðuð hornspyrna frá Guðmundi og Þórarinn gerði vel að ná föstum skalla á markið þrátt fyrir að þurfa að stíga til baka.  Markið kom á góðum tíma og staðan í hálfleik 1-0.

Eins og reikna mátti með blésu Grindvíkingar til sóknar í seinni hálfleiknum.  Þeir sköpuðu sér hins vegar engin umtalsverð færi og það voru okkar menn sem áttu hættulegri sóknir.  Baldur fékk tvö úrvalsfæri; það fyrra varði Colin vel og í seinna skiptið skaut Baldur rétt fram hjá.  Eftir góða sókn var Jónas skyndilega mættur í vítateiginn en skaut beint á markmanninn.  Þegar um tíu mínútur lifðu af leiknum kom síðan annað mark Keflavíkur.  Enn var Guðmundur upphafsmaðurinn þegar hann átti góða sendingu fram á Baldur.  Hann braust í gegnum vörnina og var kominn í ágætt færi en sýndi mikla útsjónarsemi með því að renna boltanum til hliðar á Stefán Örn sem var einn og óvaldaður og skoraði af öryggi.  Lagleg sókn og gott mark.  Grindvíkingar reyndu að klóra í bakkann en gekk ekki.  Rétt fyrir leikslok áttu þeir gott skot úr aukaspyrnu sem Ómar varði vel og á síðustu andartökum leiksins kom Jóhann boltanum í netið en var greinilega rangstæður.  Lokatölur 2-0 og fyrsti sigurinn gegn Grindavík á heimavelli frá 1998 staðreynd. 

Keflavíkurvöllur, 31. júlí
Keflavík 2 (Þórarinn Kristjánsson 44., Stefán Örn Arnarson 82.)
Grindavík 0

Keflavík (4-4-2):
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustavsson, Hallgrímur Jónasson (Branko Milicevic 58.) - Hólmar Örn Rúnarsson, Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen (Magnús Þorsteinsson 85.) - Þórarinn Kristjánsson (Stefán Örn Arnarson 69.), Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Einar Orri Einarsson, Viktor Guðnason, Ólafur Jón Jónsson
Gult spjald: Baldur Sigurðsson (40.)

Dómari:
Ólafur Ragnarsson
Aðstoðardómarar: Einar K. Guðmundsson og Sigurður Óli Þórleifsson
Varadómari: Eyjólfur M. Kristinsson
Eftirlitsmaður: Eysteinn B. Guðmundsson
Áhorfendur: 912


Þessa frábæru mynd af fyrra marki Keflavíkur tók Eygló Eyjólfsdóttir á Keflavíkurvelli.