Fréttir

Knattspyrna | 29. maí 2007

Góður sigur í skemmtilegum leik

Þeir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína á Keflavíkurvöll að kvöldi annars í hvítasunnu urðu vitni að skemmtilegum leik þegar nýliðar HK komu þangað í heimsókn í 4. umferð Landsbankadeildarinnar.  Heimamenn voru sáttari heim í þetta skiptið eftir öruggan 3-0 sigur Keflavíkurliðsins.  HK-menn léku þó prýðilega og áttu nokkur dauðafæri í leiknum.  Okkar menn léku þí einfaldlega betur, náðu upp betra spili og nýttu sín færi.  Eftir ágæta byrjun gestanna náði Keflavíkui forystunni eftir um hálftíma leik þegar Þórarinn skoraði með skalla eftir frábæran undirbúning hjá Símun.  Það var svo Símun sem skoraði annað markið á 60. mínútu og í þetta sinn eftir sendingu frá Baldri.  Undir lok leiksins skoraði Guðmundur Steinars þriðja markið eftir að Gunnleifur hafði varið skot frá Símun.  Góður sigur í höfn gegn ferskum HK-mönnum.  Að loknum fjórum umferðum er Keflavík í 3. sæti deildarinnar með 7 stig.  Nú verður gert nokkurra daga hlé á Landsbankadeildinni en næsti leikur Keflavíkur er gegn Val á Laugardalsvelli fimmtudaginn 7. júní kl. 19:15.

Morgunblaðið
Óhætt er að segja að Keflvíkingar hafi verið vel að sigrinum komnir.  Þeir voru einbeittir og duglegir við að brjóta mótspyrnu HK á bak aftur og tókst það áður en yfir lauk. Vörnin var öryggið uppmálað og skartaði á ný varnarjaxlinum Guðmundi Viðari Mete, sem sneri til baka eftir meiðsli.  Það vantar ekki baráttuna í hann en sjálfur segist hann enn eiga talsvert í land með að ná fyrri styrk. „Það er langt frá því að ég sé búinn að ná mér.  Þetta var annar leikur minn í átta mánuði og það tekur tíma að ná sér en þá verður maður líka að spila leiki.  Við ætluðum að taka þrjú stig og gerðum það enda á ekkert lið að fara héðan með stig með sér. Við erum komnir með sjö stig af tólf mögulegum og það er viðunandi,“ sagði Guðmundur eftir leikinn.
MM: Símun
M: Ómar, Guðjón, Branko, Guðmundur Mete, Hallgrímur, Jónas.

Fréttablaðið
Guðmundur Steinarsson sagði að markmiðinu hefði verið náð hjá Keflvíkingum, þrjú stig í hús.  „Þeir fengu sín færi og hefðu getað verið komnir yfir en þetta hafðist og markmiðið okkar að taka þrjú stig var staðreynd. Við náðum upp fínu spili á köflum en það er ýmislegt sem við þurfum að bæta í fríinu sem er að koma. Þetta er þó allt á réttri leið. Við erum nokkuð sáttir eftir þetta hraðmót í upphafi en við höldum okkar striki og gefum bara í ef eitthvað er,“ sagði Guðmundur.
Ómar Jóhannsson 7, Guðjón Antoníusson 6, Hallgrímur Jónasson 7, Guðmundur Mete 7, Branko Milicevic 6, Marco Kotilainen 7, Jónas Guðni Sævarsson 8, Baldur Sigurðsson 8, Símun Samuelsen 9, (Ingvi Rafn Guðmundsson -), Þórarinn Kristjánsson 7 (Stefán Örn Arnarson -), Einar Örn Einarsson 4 (Guðmundur Steinarsson 7).
Maður leiksins: Símun Samuelsen

Víkurfréttir
Þeir Magnús Þorsteinsson, Nicolaj Jörgensen og Kenneth Gustafsson voru allir fjarverandi í Keflavíkurliðinu í kvöld sökum meiðsla og þá var Guðmundur Steinarsson á varamannabekknum í upphafi leiks en frammi í Keflavíkurliðinu voru þeir Þórarinn Kristjánsson og Einar Örn Einarsson.

Ómar Jóhannsson, markvörður Keflvíkinga var kátur í leikslok og sagði það ánægjulegt að hafa haldið hreinu í dag. „Ég fékk góða hjálp en ég hef haft meira að gera og það var mikilvægt að við skyldum ná að skora á undan því HK er mikið stemmningslið,“ sagði Ómar sem þarf að berjast fyrir hverri einustu mínútu í Keflavíkurliðinu því samkeppnin þar á bæ er mikil enda þrír markverðir á mála hjá Keflavíkurliðinu. „Hér er hörku samkeppni um markvarðarstöðuna en mér líður bara vel. Reyndar hefur verið fínt að hafa Bjarka (Guðmundsson) hérna með okkur því ég hef lært helling af honum,“ sagði Ómar.

Fótbolti.net
Gunnleifur Gunnleifsson, fyrirliði HK og fyrrum markvörður Keflvíkinga, sagði eftir tapleikinn gegn Keflavík í kvöld að sýnir menn hafi verið alltof fljótir að gefast upp.  ,,Já, já, Keflavík er með frábært lið og við vissum alveg að við myndum lenda í erfiðum leik.  Mér fannst við vera full fljótir að gefast upp,” sagði Gunnleifur við Fótbolti.net eftir leikinn í kvöld.  ,,Maður fer náttúrulega í alla leiki til þess að vinna en við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir að tapa gegn Keflavík.  Þeir eru með frábært lið og mér fannst þetta vera full auðvelt fyrir þá.  Þeir eru alveg hiklaust líklegir til þess að gera góða hluti í sumar,” sagði Gunnleifur að lokum.

Gras.is
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur var ekkert sérstaklega ánægður með leik sinna manna í kvöld er þeir unnu nýliða HK 3-0 á heimavelli. Hann sagði að sínir menn hefði verið heppnir með að HK skildi ekki hafa nýtt færin sín betur og of mikið af röngum ákvörðun hafi verið hjá Keflavíkur liðinu.

Þú sagðir fyrir leikinn að skora snemma og brjóta þá niður strax. Það tókst?
„Já, það tókst og þeir voru sárir eftir síðasta leik þar sem þeir töpuðu 4-0 og það var bara að refsa þeim strax.“
Ertu ánægður með leikinn í heildina?
„Við vorum ekkert að spila sérstaklega vel og HK voru að góðir í því að slá okkur út af laginu. Nei ég er ekkert sérstaklega ánægður með þetta í heildina.  Við vorum heppnir að þeir skildu ekki klára sín færi betur en svo þegar líður á leikinn og við erum komnir í 2-0 og svo 3-0 þá opnast leikurinn og við hefðum getað sett hann inn en við tókum ekki nóg margar réttar ákvarðanir.“


Keflavíkurvöllur, Landsbankadeildin, 28. maí 2007

Keflavík 2 (Þórarinn Kristjánsson 28., Símun Samuelsen 60., Guðmundur Steinarsson 76.)
HK 0
Keflavík:
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Hallgrímur Jónasson, Guðmundur Mete, Branko Milicevic - Marco Kotilainen, Jónas Guðni Sævarsson, Baldur Sigurðsson, Símun Samuelsen (Ingvi Rafn Guðmundsson 85.) - Einar Örn Einarsson (Guðmundur Steinarsson46.), Þórarinn Kristjánsson (Stefán Örn Arnarson 73.).
Varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson, Þorsteinn Georgsson, Magmús Matthíasson, Hilmar Trausti Arnarson.
Gult spjald: Símun Samuelsen (30.)

Dómari: Eyjólfur M. Kristinsson.
Aðstoðardómarar: Gunnar Gylfason og Jóhann Gunnar Guðmundsson .
Eftirlitsmaður: Geir Agnar Guðsteinsson.

Áhorfendur: 1849.


Símun átti stórleik og er hér á fullri ferð með boltann.


Okkar menn fagna góðum sigri.
(Myndir: Jón Björn Ólafsson og Hilmar Bragi Bárðarson /
Víkurfréttir)