Fréttir

Knattspyrna | 28. júní 2005

Góður sigur meistaraflokks kvenna á Akranesi

Keflavíkurstúlkur gerðu góða ferð á Akranes í gær er þær sóttu lið ÍA heim í Landsbankadeild kvenna.  Keflavík sigraði með 5 mörkum gegn 0, eftir að hafa verið 3-0 yfir í hálfleik.

Leikurinn bar þess merki að hávaðarok (og rigning að hluta til) var á meðan leikur stóð yfir.  Keflavíkurliðið var staðráðið í að fylgja eftir góðum sigri á Stjörnunni í síðustu umferð.  Keflavíkurliðið hóf leikinn með vindinn í bakið og var með leikinn í sínum höndum þó svo að liðið kæmist aldrei almennilega í gang.  Skagastúlkur vörðust vel og reyndu að sækja hratt.  Þegar líða tók á fyrri hálfleik náði Keflavík að skora en þar var á ferðinni Ágústa Jóna Heiðdal með góðu skoti vel fyrir utan vítateig, 0-1.  Við þetta róuðust leikmenn Keflavíkur aðeins og náðu að halda pressu á liði ÍA.  Lilja Íris Gunnarsdóttir skoraði síðan annað markið með góðu skoti utan af velli, 0-2.  Eftir góða sókn og mikinn atgang við mark ÍA skoraði Hrefna Guðmundsdóttir með góðu skoti frá markteigshorni, 0-3.  Fyrri hálfleik lokið og Keflavík fór inn með gott forskot.

Seinni hálfleikur hófst með snörpum sóknum Keflavíkur þó að liðið léki á móti strekkingsvindi.  Strax á fyrstu mínútum seinni hálfleiks fékk Vesna Smiljkovic góða sendingu inn fyrir vörn ÍA og náði að komast inn fyrir markmann ÍA sem tók hana niður og dæmdi dómari leiksins umsvifalaust víti og rak markmann ÍA útaf.  Nína Ósk Kristinsdóttir skoraði síðan af öryggi úr vítaspyrnunni, 0-4.  Síðan rak Vesna Smiljkovic endahnútinn á góðan og öruggan sigur Keflavíkur með góðu marki eftir góðan undirbúning Keflavíkurliðsins, 0-5.

Keflavíkurliðið spilaði þennan leik vel og þó sérstaklega seinni hálfleikinn.  Liðið fékk ekki á sig mark og var það eitthvað sem stefnt var að og er liðið að ná betur samann með hverjum leiknum.  Gott er að byggja á þessum sigri sem og leiknum við Stjörnuna síðustu umferð, 5-2, og taka einn leik fyrir í einu.

Næsta verkefni er FH í Hafnarfirði þann 5.júlí n.k. kl.20.


Keflavíkurliðið stóð sig vel upp á Skaga í gær.
(Liðið að fagna marki á móti FH fyrr í sumar)