Góður sigur suður á Spáni
Keflavík vann í dag góðan 2-1 sigur á spænska liðinu Recreativo Huelva en leikið var á Spáni. Það voru þeir Símun Samuelsen og Danny Severino sem skoruðu mörkin. Leikurinn var virkilega góður hjá okkar strákum og uppskeran var góður sigur á sterku spænsku liði. Það var hart barist í leiknum og Spánverjarnir voru ekki á því að láta einhverja útlendinga vinna sig létt. Tæklingarnar flugu á báða bóga og gulu spjöldin hrönnuðust upp. Íslenskt dómaratríó leiksins hafði því í mörg horn að líta og komst vel frá sínu með Erlend Eiríksson dómara á fararbroddi. Okkar menn töldu sig reyndar hafa skorað þriðja mark sitt í leiknum en dómararnir töldu boltann ekki hafa farið yfir línuna. Eins og áður sagði var hart tekist á og undir lok fyrri hálfleiks þurftu þeir Guðjón og Branko báðir að yfirgefa völlinn meiddir. Ekki er ljóst hvort þau meiðsli eru alvarleg. Í síðari hálfleiknum var öllum varamönnunum skipt inn á; yngri leikmennirnir fengu þá tækifæri og stóðu sig með prýði. Rétt undir lokin kom fyrirliðinn Guðmundur Steinarsson svo inn á en ekki hafði verið reiknað með að hann gæti tekið þátt í leiknum. Næsti leikur Keflavíkur í Spánarreisunni er gegn Aymonte á morgun og hefst sá leikur kl. 17:00 að íslenskum tíma. Á föstudaginn verður svo leikið gegn Breiðablik en Blikar eru í æfingaferð þar suður frá rétt eins og Keflavík.
Færeyska undrabarnið Símun Samuelsen skoraði gegn Recreativo Huelva.