Góður útisigur hjá 3. flokki kvenna
3. flokkur kvenna lék í gær gegn HK í Kópavogi. Blíðskapaveður var í Fossvogsdalnum er leikurinn fór fram, sólin skein skært á leikmenn og gerði þeim í leiðinni erfitt fyrir. Leikurinn byrjaði á rólegu nótunum og við sköpuðum nokkur færi sem hefðu átt að nýtast betur. Það var því algjörlega gegn gangi leiksins er HK tók forystu á 15. mínútu þegar fyrirgjöf frá hægri barst á fjærstöng þar sem ein Kópavogsstúlkna stóð óvölduð og átti ekki í vandræðum að skora. Við þetta mark fóru okkar stelpur að láta meira að sér kveða og sóttu linnulaust næstu mínutur. Til að mynda björguðu HK-stúlkur á marklínu. Þessi sóknarþungi bar loks árangur þegar Karen skoraði með langskoti á 30. mínútu. Enn hélt pressan á mark HK áfram og mínútu fyrir leikhlé náði Helena Rós forystu fyrir okkur eftir að hafa fengið fyrirgjöf út í teig frá Birnu. Helena gerði sér lítið fyrir, tók boltann á lofti og afgreiddi hann viðstöðulaust í hægra hornið, gjörsamlega óverjandi fyrir markvörð HK.
Í seinni hálfleik vorum við mun meira með boltann og þjörmuðum í leiðinni nokkuð að marki heimastúlkna. Á 65. mínútu fengum við hornspyrnu og eftir nokkurt klafs í teignum náði Andrea að skora og koma okkur í 3-1. HK náði síðan að minnka muninn á 73. mínútu eftir að við töpuðum boltanum í einni sóknaraðgerð okkar. Einföld stungusending kom inn fyrir vörnina og átti sú sem skoraði ekki í vandræðum að setja boltann fram hjá Önnu í markinu sem kom út á móti. Sjö mínutur eftir af leiknum og HK-stelpur eygðu smá von að jafna leikinn. En Helena Rós var á annarri skoðun. Á 75. mínútu átti Sonja glæsilega sendingu á Helenu út á vinstri kantinn. Hún tók á móti boltanum, lék honum aðeins áfram og lét skotið vaða á markið og boltinn steinlá í netinu. Staðan orðin 4-2 okkur í vil og það urðu reyndar lokatölur þessa leiks. Stelpurnar voru á köflum að spila fínan bolta og baráttan var til staðar. Þegar þetta nær saman er oftast von á góðu.
3. flokkur, HK - Keflavík: 2-4 (Helena Rós 2, Karen S., Andrea)
Keflavík: Anna Rún, Bergþóra, Helga Maren, Rebekka, Ingibjörg, Birna Marín, Eva, Hildur, Helena Rós, Andrea, Karen S., Sonja, Jóna, Ingey, Kristín, Karen H.
Mynd: Helena Rós skoraði tvö glæsileg mörk gegn HK í Kópavoginum.