Fréttir

Knattspyrna | 31. ágúst 2005

Góður útisigur í Árbænum

Velgengni Keflavíkur á útivöllum hélt áfram á Fylkisvelli í gær þegar okkur menn sigruðu heimamenn 1-0 í 16. umferð Landsbankadeildarinnar.  Keflavík komst með sigrinum í 4. sæti deildarinnar og er enn með í baráttunni um hið margumtalaða 3. sæti.  Eftir leikinn í gær er Keflavík með 24 stig og þess má geta að 7 þeirra hafa unnist á heimavelli en liðið hefur krækt í 17 stig á útivöllum í sumar!

Leikurinn í gær var nokkuð kaflaskiptur.  Fylkismenn sóttu meira í fyrri hálfleik og gerðu þá oft harða hríð að marki Keflvíkinga með Hauk Inga Guðnason fremstan í flokki.  En vörnin hélt að þessu sinni og Ómar stóð sig vel í markinu fyrir aftan hana.  Okkar menn sóttu í sig veðrið í seinni hálfleik og sigurmarkið kom um stundarfjórðungi fyrir leikslok.  Guðjón átti þá góða fyrirgjöf frá vinstri og Hólmar Örn skoraði örugglega af stuttu færi.  Eftir markið voru okkar menn nær því að bæta við marki en heimamenn að jafna.

Með sigrinum er Keflavík í 4. sæti deildarinnar.  Næst er heimaleikur gegn Fram og liðið leikur keppni á útivelli í Grindavík.  ÍA er nú í 3. sæti, tveimur stigum á undan.  Skagamenn leika næst á útivelli gegn ÍBV og síðan heimaleik gegn KR-ingum.  KR er einmitt í 5. sætinu, tveimur stigum á eftir Keflavík.  Þeir eiga eftir heimaleik gegn Val og síðan leikinn á Skaganum í síðustu umferðinni.  Þannig að það stefnir í hörkubaráttu þessara liða í 3.-5. sæti deildarinnar.

Nú tekur við hlé á deildinni vegna landsleikja en næsti leikur er á heimavelli gegn Fram sunnudaginn 11. september kl. 14:00.  Þá er kominn tími til að hrista af sér heimaleikjagrýluna og hala inn mikilvæg stig í síðasta heimaleik sumarsins.  Síðasti leikur Keflavíkur er svo í Grindavík laugardaginn 17. september.

Fylkisvöllur, 30. ágúst 2005
Fylkir 0
Keflavík 1 (Hólmar Örn Rúnarsson 77.)

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Jónas Guðni Sævarsson, Kenneth Gustavsson, Guðmundur Mete, Branko Milicevic (Guðjón Antoníusson 46.) - Hólmar Örn Rúnarsson, Baldur Sigurðsson, Gestur Gylfason, Símun Samuelsen (Issa Abdulkadir 68.) - Hörður Sveinsson, Guðmundur Steinarsson (Stefán Örn Arnarson 84.)
Varamenn: Michael Johansson, Bjarni Sæmundsson
Gul spjöld: Baldur Sigurðsson (42.), Gestur Gylfason (65.)

Dómari: Eyjólfur M. Kristinsson
Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Sigurður Óli Þórleifsson
Eftirlitsdómari: Páll Júlíusson


Hólmar Örn þrumar boltanum í netið.  Sigurmarkið!


Kenneth í baráttunni og Jónas fylgist spenntur með.
(Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir)