Góður útisigur í Garðabænum
Keflavík gerði góða ferð í Garðabæinn þegar liðið heimsótti Stjörnuna í 12. umferð Pepsi-deildarinnar. Okkar menn sigruðu 3-2 í fjörugum leik. Baldvin Sturluson kom Stjörnunni yfir en Einar Orri Einarsson jafnaði nær samstundis. Í byrjun seinni hálfleiks kom Magnús Þórir Matthíasson Keflavík yfir en að þessu sinni jöfnuðu Stjörnumenn jafnharðan þegar Halldór Orri Björnsson skoraði úr víti. Þar var svo Hilmar Geir Eiðsson sem gerði út um leikinn með marki um tíu mínútum fyrir leikslok. Eftir leikinn er Keflavík í 6. sæti deildarinnar með 17 stig.
Næsti leikur er heimaleikur gegn KR miðvikudaginn 3. ágúst kl. 19:15.
-
Leikurinn var 14. leikur Keflavíkur og Stjörnunnar í efstu deild og sjötti sigur Keflavíkur. Stjarnan hefur unnið þrjá leiki en fimm hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 23-19 fyrir Keflavík.
-
Einar Orri Einarsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík. Einar Orri hefur leikið 61 deildarleik, 11 bikarleiki og 4 leiki í Evrópukeppni og skoraði því fyrsta mark sitt í 76. opinbera leiknum með Keflavík.
-
Magnús Þórir Matthíasson gerði fyrsta deildarmark sitt í sumar en hann hafði gert tvö mörk í bikarnum. Markið var það fimmta sem Magnús gerir fyrir Keflavík í efstu deild.
-
Hilmar Geir Eiðsson skoraði sitt fimmta mark í sumar og hann er orðinn markahæsti leikmaður liðsins í deildinni á tímabilinu.
-
Keflavík vann sinn fyrsta leik á Stjörnuvellinum frá árinu 1997 en síðan hafði liðið leikið fjóra deildarleiki þar án þess að skora. Þetta var jafnframt fyrsta tap Stjörnunnar á heimavelli í sumar.
-
Fyrri leik liðanna í sumar lauk 4-2 og því voru skoruð 11 mörk í þessum tveimur leikjum. Alls hafa verið skoruð 34 mörk í leikjum Keflavíkur í Pepsi-deildinni í sumar og hinir 10 leikirnir hafa því gefið af sér 23 mörk.
Fótbolti.net
Guðmundur Steinarsson leikmaður Keflvíkinga var skiljanlega sáttur með 3-2 sigurinn gegn Stjörnunni í Garðabænum í kvöld þegar liðin mættust í Pepsi deild karla.
„Þetta voru hrikalega sterkir þrír punktar og sérstaklega eftir að við töpuðum fyrir norðan. Okkur fannst illa að okkur vegið þar og það var rosalega sterkt að koma og snúa þessu við hérna. Líka vegna þess að við skitum algerlega upp á bak hérna í fyrra og töpuðum 4-0, þetta var smá hefnd fyrir það,“ sagði Guðmundur við Fótbolta.net.
„Þeir hafa sýnt það í gegnum tíðina að þeir eru mjög erfiðir heim að sækja og tapa fáum stigum hérna. Það gerir þetta kannski líka sætara. Ég held líka að það hafi gefið okkur smá blóðbragð í muninn að tapa fyrir norðan.“
Willum Þór Þórsson þjálfari Keflvíkinga hefur lengi verið þekktur sem afar klókur þjálfari og það sannaðist í kvöld þegar hann spilaði óvæntum ási upp úr erminni í hálfleik, sem Guðmundur vill meina að hafi landað sigrinum.
„Svo kom Willum með extra punktinn í hálfleik og lofaði auka degi í frí um verslunarmannahelgina og það var kannski ákveðinn innspýting til að sigla þessu heim. Þetta var letisigur, menn geta núna legið í leti um verslunarmannahelgina og haft það gott, það var kannski það sem skilaði þessu,“ sagði Guðmundur við Fótbolta.net.
Fréttablaðið / Vísir
Menn hættu að spila fótbolta og það þurfti klassískan Guðmund Steinarsson til að búa til mark. Og það sigurmark. Hann átti frábæra sendingu inn í teiginn þar sem Hilmar Geir Eiðsson skoraði.
"Ofsalegur liðsheildar- og karaktersigur enda er andinn í Keflavíkurliðinu mjög sterkur. Það er öflugt þetta Keflavíkur hjarta," sagði Willum Þór Þórsson, en hann lagði leikinn hárrétt upp og ef einhver ætti að vera maður gærdagsins á Stjörnuvelli - þá er það þjálfarinn.
Ómar 6, Guðjón Árni 5, Viktor 5, Adam 6, Haraldur 7, Einar Orri 6, Andri Steinn 6, Arnór Ingvi 5 (Magnús Þór Magnússon -), Hilmar Geir 8, Magnús Þórir 6 (Magnús Sverrir 5), Guðmundur 5 (Bojan Stefán -).
Morgunblaðið / Mbl.is
Baráttan var til fyrirmyndar í liði Keflvíkinga og þegar þessi gállinn er á þeim geta þeir unnið hvaða lið sem er. Keflvíkingar léku lengst af leiknum af skynsemi og góð liðsheild var þeirra sterkasta vopn. Varnarleikurinn var nokkuð traustur, miðjumennirnir voru mjög duglegir og vinnusamir og þeir Hilmar Geir Eiðsson og Guðmundur Steinarsson reyndust varnarmönnum Stjörnunnar erfiðir. Sigurinn gefur Keflvíkingum án efa byr undir báða vængi og það kæmi mér ekki á óvart ef þeir kæmust í kjölfarið á gott skrið, svo framarlega sem þeir nýta fríið vel og það veit ég að þjálfari þeirra mun gera.
M: Ómar, Adam, Einar Orri, Hilmar Geir.
Pepsi-deild karla, Stjörnuvöllur, 24. júlí 2011
Stjarnan 2 (Baldvin Sturluson 19., Halldór Orri Björnsson víti 56.)
Keflavík 2 (Einar Orri Einarsson 20., Magnús Þórir Matthíasson 50., Hilmar Geir Eiðsson 81.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Viktor Smári Hafsteinsson, Adam Larsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson, Arnór Ingvi Traustason (Magnús Þór Magnússon 78.), Einar Orri Einarsson, Andri Steinn Birgisson, Magnús Þórir Matthíasson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 70.), Guðmundur Steinarsson (Bojan Stefán Ljubicic 85.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Ásgrímur Rúnarsson, Goran Jovanovski, Frans Elvarsson.
Gul spjöld: Magnús Þórir Matthíasson (22.), Andri Steinn Birgisson (77.).
Dómari: Þóroddur Hjaltalín Jr.
Aðstoðardómarar: Oddbergur Eiríksson og Óli Njáll Ingólfsson.
Eftirlitsdómari: Ari Þórðarson.
Áhorfendur: 832.
Hilmar Geir gerir sigurmarkið undir lokin.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)