Góður útisigur í nágrannaslagnum
Keflavík vann góðan útisigur á Grindavík þegar liðin mættust í 2. umferð Pepsi-deildarinnar. Lokatölur urðu 4-0 en okkar menn voru mun sterkari allan leikinn. Frans Elvarsson kom Keflavík yfir strax eftir um tuttugu mínútna leik. Frans var síðan aftur á ferðinni á 33. mínútu og Arnór Ingvi Traustason skoraði þriðja markið skömmu síðar. Það var svo Einar Orri Einarsson sem gulltryggði sigurinn með marki í upphafi seinni hálfleiks.
Næsti leikur er heimaleikur gegn Stjörnunni í Pepsi-deildinni mánudaginn 14. maí kl. 19:15.
-
Leikurinn var 31. leikur Keflavíkur og Grindavíkur í efstu deild. Þetta var 14. sigur Keflavíkur en Grindavík hefur unnið 10 leiki og sjö hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 48-38 fyrir Keflavík.
-
Þetta var stærsti sigur Keflavíkur á Grindavík í efstu deild. Áður hafði Keflavík tvisvar unnið þriggja marka sigur; 3-0 árið 1998 og 4-1 árið 2002.
-
Frans Elvarsson skoraði annað og þriðja mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild í sínum áttunda leik. Arnór Ingvi Traustason gerði sitt þriðja mark í efstu deild í 20 leikjum. Einar Orri Einarsson skoraði annað markið fyrir Keflavík í efstu deild en þau hafa komið í 70 leikjum. Það voru því miðjumenn liðsins sem sáu um markaskorunina en meðalaldur þessara þriggja leikmanna er 20,5 ár.
-
Denis Selimovic lék í fyrsta sinn með Keflavík í efstu deild þegar hann kom inn á sem varamaður á 74. mínútu..
-
Keflavík hefur ekki tapað í sex leikjum í röð í Grindavík í efstu deild. Liðið hefur unnið þrjá þessara leikja og þremur hefur lokið með jafntefli. Síðasta tapið í Grindavík kom árið 2005.
Fótbolti.net
Það er erfitt að taka einhvern einn leikmann út úr Keflavíkurliðinu sem mann leiksins en það verður á engann hallað að útnefna Frans Elvarsson. Hann skoraði ekki aðeins tvö mörk, heldur átti miðjuna gjörsamlega skuldlausa og var þar sem kóngur í ríki sínu. Einnig má minnast á stórleik "gömlu" mannanna Guðmundar Steinarssonar og Jóhanns Birnis Guðmundssonar en þeir félagar áttu báðir príðisleik og virkuðu ekki degi eldri en yngstu menn liðsins.
Fréttablaðið / Vísir
„Ég er fyrst og fremst mjög ánægður með þrjú stig hérna í dag. Við spilum virkilega vel í kvöld. Við vorum þolinmóðir á boltann og vorum að skapa okkur fullt af færum," sagði Zoran.
„Það var miklu meiri vilji í okkur í leiknum og ætluðum við að bæta fyrir frammistöðu síðasta leiks, sem við klúðruðum. Ég er virkilega ánægður með frammistöðu leikmanna, en þeir voru að leggja sig 100% fram.
„Við erum ánægðir með okkar byrjun í mótinu. Það er gott að vera komnir með fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjunum en við megum ekki slaka á. Við erum bara búnir að vinna einn leik af tuttugu og tveimur og verðum við að einbeita okkur að næsta leik," sagði Zoran Daníel Ljubicic, þjálfari Keflavík, sáttur í leikslok.
Ómar 6, Grétar Atli 6, Jóhann Ragnar 6, Gregor 6, Haraldur 6, Einar Orri 8, Arnór Ingvi 7 (Denis -), Frans 8 , Jóhann Birnir 8 (Sigurbergur -), Hilmar Geir 7 (Bojan 6), Guðmundur 7.
Morgunblaðið / Mbl.is
Frans sagði sína menn hafa verið viðbúna. »Við ætluðum bara að halda boltanum því við getum brotið öll lið á bak aftur og gerðum það svo sannarlega í kvöld enda átti Grindavík aldrei möguleika gegn okkur,« bætti Keflvíkingurinn við og gaf ekki mikið út á að vera spáð fallbaráttu. »Mér finnst þessi spá um að við lendum í ellefta sæti bara kjaftæði, við erum miklu betri en svo að lenda í því sæti og vitum hvað við getum enda spáum við ekkert í þessar spár.«
Óhætt er að taka undir þessi orð því miðað við baráttuhuginn og þolinmæðina réðu Keflvíkingar ferðinni og erfitt að sjá þetta lið fyrir sér í fallbaráttu. Vörnin með fyrirliðann Harald Frey Guðmundsson í broddi fylkingar lét meinta hættulega sóknarmenn Grindvíkingar ekki komast upp með neitt en það er samt ekki svo að félagar hans í vörninni hafi bara horft á. Síðan er Guðmundur Steinarsson alltaf seigur og var vel studdur af yngri mönnum.
M: Haraldur Freyr, Einar Orri, Arnór Ingvi, Frans, Hilmar Geir, Jóhann Birnir, Guðmundur.
Víkurfréttir / VF.is
Keflvíkingar gjörsamlega yfirspiluðu granna sína í Grindavík á heimavelli þeirra gulklæddu er þeir unnu stórsigur í Suðurnesjaslagnum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur 4-0 og verður að segjast að sú úrslit gefi algerlega rétta mynd af leiknum, enda sáu Grindvíkingar vart til sólar í leiknum. Heimamenn voru algerlega andlausir og í raun lítið jákvætt hægt að segja um þeirra leik. Tæplega 1000 áhorfendur mættu til leiks á Grindavíkurvöll og voru Keflvíkingar þar ívið fyrirferðameiri líkt og á vellinum.
433.is
Keflvíkingar voru sterkari strax frá fyrstu mínútu og sköpuðu sér snemma færi en þar var Guðmundur Steinarsson sem var allt í öllu í sóknarleik Keflvíkinga að verki. Skömmu síðar eða á 19. mínútu kom fyrsta markið er Guðmundur Steinarsson kom sér í gott færi og Óskar verði boltann útí teig þar sem Frans Elvarsson kom og smellti boltanum í netið. Eftir þetta róaðist aðeins yfir leiknum en á 33. mínútu kom annað mark Kefvíkinga og annað mark Frans Elvars. Hann fékk þá stutta stungusengingu frá títtnefndum Guðmundi og lagði boltann í netið af miklu öryggi.
Grindvíkingar höfðu enginn svör við sóknarleik Keflavíkur og stuttu síðar kom þriðja markið. Þar var Arnór Ingi Traustason að verki eftir góða fyrirgjöf frá Hilmari Geir af hægri vængnum. Síðari hálfleikurinn fór af stað einsog sá fyrri endaði og Kefvíkingar settu strax mark á andlausa Grindvíkinga sem virtust ekki nenna að spila þenna leik. Þar tók Jóhann Birnir aukaspyrnu frá hægri sem rataði beint á kollinn á Einar Orra sem skoraði með snyrtilegri kollspyrnu.
Ómar 6, Grétar Atli 7, Jóhann Ragnar 7, Gregor 7, Haraldur 8, Einar Orri 7, Arnór Ingvi 7 (Denis -), Frans 8 , Jóhann Birnir 7 (Sigurbergur 6), Hilmar Geir 7 (Bojan 6), Guðmundur 7.
Pepsi-deild karla, Grindavíkurvöllur, 10. maí 2012
Grindavík 0
Keflavík 4 (Frans Elvarsson 19., 33., Arnór Ingvi Traustason 37., Einar Orri Einarsson 46.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Grétar Atli Grétarsson, Jóhann R. Benediktsson, Gregor Mohar, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hilmar Geir Eiðsson (Bojan Stefán Ljubicic 63.), Einar Orri Einarsson, Arnór Ingvi Traustason (Denis Selimovic 74.), Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Sigurbergur Elísson 71.), Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Bergsteinn Magnússon, Viktor Smári Hafsteinsson, Magnús Þór Magnússon, Daníel Gylfason.
Gul spjöld: Grétar Atli Grétarsson (43.).
Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.
Aðstoðardómarar: Áskell Þór Gíslason og Sverrir Gunnar Pálmason.
Eftirlitsdómari: Þórður Georg Lárusson.
Áhorfendur: 986.
Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir
Arnór Ingvi hamrar boltann í netið.
Og er bara nokkuð sáttur...
...eins og félagarnir.
Einar Orri með fjórða markið og stórsigur í höfn.