"Gott að byrja á verðugu verkefni" - Spjall við Kristján þjálfara
Nú styttist í stóru stundina en Landsbankadeild karla hefst á laugardaginn. Við fáum Íslandsmeistara Vals í heimsókn á Sparisjóðsvöllinn og hefst leikurinn kl. 16:15. Af þessu tilefni lögðum við nokkrar spurningar fyrir Kristján þjálfara til að athuga stöðuna á okkar mönnum.
Hvernig leggst tímabilið í þig?
Það leggst að sjálfsögðu vel í mig og ekki síst að vera komnir út og á náttúrulegt gras, það er með eindæmum allt annað.
Við höfum misst nokkra sterka leikmenn frá því í fyrra. Hvernig líst þér á hópinn núna?
Hópurinn er ágætur. Það er mikið talað um þá leikmenn sem eru farnir og allt of lítið um þá leikmenn sem eru hjá okkur eða hafa gengið til liðs við okkur og er það ljóður á umfjöllun um liðið.
Einhverjir ungir strákar sem þú heldur að fólk muni taka eftir hjá okkur í sumar?
Alveg áreiðanlega en ég er ekki tilbúinn til þess að nefna einn sérstakan. Það er undir strákunum sjálfum komið að grípa sénsinn þegar hann gefst og spila vel. Nú verður mun styttra á milli leikja og einhverjir ungir leikmenn eiga örugglega eftir að fá tækifæri í sumar.
Hvað er raunhæft markmið hjá Keflavíkurliðinu í Landsbankadeildinni?
Það er að spila vel og vera bæjarfélaginu til sóma. Ef spurt er um lokamarkmið, sæti í deild eða þess háttar, þá getum við sagt sem svo að sæti í efri helmingnum sé ásættanlegt. Hvað leikmennina varðar þá hafa þeir sett sér ýmis markmið sem þeir ætla sér að ná á mismunandi tímum á keppnistímabilinu.
En hvaða lið heldur þú að verði í toppbaráttunni?
Ég nefni fjögur lið; Val, FH, Fylki og Breiðablik.
Er að verða erfiðara fyrir okkur að keppa við liðin í Reykjavík varðandi leikmenn, fjármagn og aðstöðu?
Já, vissulega. Það er engin launung að það er minna fjármagn hér á svæðinu en á svæðinu við borg óttans. Nánast öll liðin í Landsbankadeildinni koma úr Reykjavík þar sem fjármagnið er, tvö lið úr Kópavogi og eitt úr Hafnarfirði. Á báðum stöðum er gríðarlega vel gert við liðin, aðstaðan hjá þessum liðum orðin frábær og virðing borin fyrir starfi deildanna í félögunum.
Íslandsmeistararnir heima í 1. umferðinni? Er það gott eða slæmt?
Gott, erfiðasta prófið á fyrsta prófdegi. Svo er annað prófið líka verulega erfitt því ég tel að Fylkir verði mjög sterkir í ár.
Nokkrir lykilmenn hafa verið að berjast við meiðsli í vor. Hvernig er staðan í dag og hverjir eru ekki tilbúnir í 1. leik?
Það eru allir tilbúnir í leikinn, sumir mistilbúnir en nægjanlega til þess að geta tekið einhvern þátt í leiknum. Það á svo eftir að koma í ljós hvort þeir verði valdir i hópinn.
Nú er búið að fjölga liðunum í deildinni í 12 og hvert lið leikur þá 22 leiki í stað 18. Hvaða áhrif hefur þetta almennt og á Keflavíkurliðið?
Það er fyrst og fremst það að götin eða eyðurnar á milli leikja hverfa. Stundum liðu 10 til 20 dagar á milli leikja sem var hræðilegt fyrir leikmennina en þó fyrst og fremst erfitt fyrir hinn almenna áhangenda að fylgjast með því hvað væri að gerast í deildinni, hvenær næsti leikur væri, hvernig staðan væri í deildinni o.s.frv. Þéttari leikjaáætlun fylgir aukið álag á leikmenn sem kallar á stærri leikmannahópa til þess að standast álagið hvort sem það eru ungir leikmenn eða eldri rebbar, skynsama æfingaáætlun, rétta næringu og hvíld. Við eigum eftir að sjá einhverja þjálfara taka „Benitez-aðferðina” og hvíla leikmenn í einstaka leikjum...
Við þökkum Kristjáni fyrir og þá er bara að mæta á völlinn og styðja okkar menn.
Þjálfarinn vígalegur í Tyrklandi.
(Mynd: Jón Örvar)