Gott gengi 4. flokks stúlkna
Stelpurnar í 4. flokki, A- og B-liðum, tóku á móti stórveldinu KR í gærkvöldi að Iðavöllum. Keflavíkurstúlkur sigruðu í báðum leikjunum, 2-1 og 3-0.
Hjá A-liðum var algjör einstefna að marki KR en stelpunum var algjörlega fyrirmunað að skora en leiddu þó í hálfleik 1-0. Í þeim seinni var sama upp á teningnum en úr einni af sínum fáum sóknum tókst KR að jafna leikinn 1-1. Það hlaut að koma að því að Keflavík skoraði mark úr einhverju þeirra aragrúa færa sem þær fengu í leiknum og það mark gerði Helena er um tíu mínutur voru til leiksloka. Lokastaðan í leiknum var 2-1 heimastúlkum í vil en ekki hefði verið ósangjarnt að stelpurnar hefðu sigrað með 7-8 marka mun!
A-lið:
Keflavík - KR: 2 - 1 (Helena Rós Þórólfsdóttir 2)
Stúlka leiksins: Helena Rós Þórólfsdóttir
Í leik B-liðanna var nánast um endurtekningu af fyrri leiknum að ræða nema að stelpurnar nýttu færin sín örlítið betur. Markið sem þurfti að fá í þennan leik lét samt á sér standa en um miðjan fyrri hálfleikinn braut Eyrún ísinn og skoraði fyrsta mark leiksins. Áður en blásið var til hlés höfðu stelpurnar bætt við marki og leiddu 2-0. Áfram hélt sóknin í síðari hálfleik en inn ætlaði boltinn ekki, ýmist fóru skotin í tréverk KR-marksins eða að við vorum að klúðra sjálfar. Loksins, loksins kom þriðja markið eftir glæsilegt þríhyrningsspil sem lauk með skoti frá Hildi og knötturinn lá í marki gestanna. Lokastaðan í leiknum 3-0.
B-lið:
Keflavík - KR: 3 - 0 (Eyrún Ósk Magnúsdóttir, Guðrún Ólöf Olsen, Hildur Rúnarsdóttir)
Stúlka leiksins: Marsibil Sveinsdóttir
Elís Kristjánsson, þjálfari