Fréttir

Knattspyrna | 28. júlí 2010

Gott gengi hjá 2. flokki

Í sumar tekur 2. flokkur kvenna þátt í Íslandsmóti 7 manna liða og hefur gengið vel.  Af ýmsum ástæðum fækkaði liðum í mótinu og þegar keppnin hófst voru aðeins þrjú félög eftir, Keflavík, Fylkir og Tindastóll/Neisti.  Var þá gripið til þess ráðs að breyta fyrirkomulagi keppninnar þannig að hvert félag héldi eina umferð þar sem allir kepptu við alla.  Fylkir hélt fyrstu umferðina í júní og þar unnu okkar stúlkur Fylki 6-2 og Tindastól/Neista 4-0.  Fylkisstúlkur unnu svo Tindastól/Neista 2-1.

Önnur umferðin var haldin á Hofsósi um síðustu helgi.  Liðin höfðu styrkt sig fyrir leikina og hafði Keflavík m.a. fengið nokkra leikmenn frá Víði sem hafði dregið sig út úr keppninni.  Fylkisstúlkur höfðu einnig bætt við sig leikmönnum og mættu ákveðnar til leiks.  Svo fór að okkar stúlkur höfðu yfirburði í báðum leikjunum og unnu Fylki 8-1 og Tindastól /Neista 5-0.  Fylkir vann síðan heimastúlkur 5-0.

Síðasta umferðin verður svo á vegum Keflavíkur sunnudaginn 22. ágúst.  Okkar liði nægir þá eitt stig úr leikjunum tveimur til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Hér að neðan eru myndir frá Hofsósi.  Á efri myndinni eru okkar stúlkur ásamt Steinar Ingimundarsyni þjálfara og Erni Eiríkssyni fararstjóra.  Stúlkurnar í rauðu treyjunum eru dætur Steinars þjálfara og við hliðina á þeim er Agnes Helgadóttir sem er frá vegna meiðsla hjá meistaraflokki.

Á neðri myndinni er lið Tindastóls/Neista en þjálfari þeirra er Keflvíkingurinn Bjarki Már Árnason sem á reyndar að baki einn leik fyrir Keflavík í efstu deild.