Gott gengi hjá stelpunum
Meistaraflokkur kvenna er búinn að tryggja sig inn í úrslitakeppnina um laust sæti í úrvalsdeild. Keflavík situr nú á toppi A-riðils eftir heimasigur á Þrótti sem er í öðru sæti en á leik til góða. Karítas Ingimarsdóttir var með tvö mörk í leiknum og Nína Ósk Kristinsdóttir og Indira Ilic með eitt hvor.
Leikurinn var kaflaskiptur en mjög skemmtilegur á að horfa. Keflavík var komið í 2-0 eftir 43 mínútur en þegar flautað var til hálfleiks hafði Þróttur jafnað leikinn með mörkum á 45. og 46. mínútu! Hér var um augnabliks kæruleysi að ræða sem kostaði tvö mörk. Í upphafi síðari hálfleiks bættu síðan Þróttarar við þriðja marki sínu. Nú settu stelpurnar fótinn niður og sögðu hingað og ekki lengra því fyrir leikinn stóð ekki til að gestirnir fengju stig með sér af okkar heimavelli. Stelpurnar sýndu gríðarlegan karakter og baráttu og sigruðu að lokum 4-3. Þær eru því það lið sem hefur séð um sigrana á vellinum síðan hann var vígður í sumar...
Fyrsti leikur í úrslitakeppninni hjá stelpunum verður heimaleikur þann 28. ágúst. kl. 14:00. Það verða annaðhvort ÍBV eða Selfoss sem verða andstæðingar okkar.
Í sumar tekur 2. flokkur kvenna tók þátt í Íslandsmótinu í 7 manna bolta. Það er skemmst frá því að segja að þær hafa unnið alla sína leiki á mótinu. Mótinu var breytt í þrjár "turneringar" sem skiptast á þrjár helgar og verður síðasta turneringin hér. Hún fer fram að Iðavöllum 7 sunnudaginn 22. ágúst. Fyrsti leikur verður kl. 13:00 og er áætlað að sá síðasti verði kl. 17:00. Keflavík þarf aðeins eitt stig til viðbótar til að verða Íslandsmeistarar 2. flokks í 7 manna boltanum í ár.
Úr leik Keflavíkur og Völsungs fyrr í sumar.