Fréttir

Knattspyrna | 7. júní 2003

Grannaslagur

Á fimmtudag áttust við Keflavík og sameiginlegt lið Reynis og Víðis í fyrsta leik Íslandsmótsins hjá 4. flokki pilta. Leikið var í A- og B-liðum. A-liðin hófu leik og var jafnræði með liðunum framan af leik en eftir að Keflvíkingar skoruðu fyrsta mark leiksins var engin spurning um úrslitin. Leikar enduðu 6 - 1. Mörk Keflavíkur gerðu Helgi Eggertsson 2, Einar Orri Einarsson 2, Björgvin Magnússon og Stefán Lynn Price. Mark Víðis/Reynis var skorað úr vítaspyrnu; þess má og geta að Víðismenn fengu aðra vítaspyrnu í leiknum en Þröstur Jóhannsson gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Dugnaðarforkur leiksins: Einar Trausti Einarsson.

Spennan var meiri í seinni leiknum hjá B-liðunum. Keflvíkingar fóru þó vel af stað og voru komnir í 3 - 0 um miðjan seinni hálfleik en Víðir/Reynir settu mikinn kraft í sóknarleikinn í lokin og minnkuðu muninn í 3 - 2.  En lengra komust þeir ekki og sú var lokastaðan. Mörk Keflavíkur gerðu Davíð Þorsteinsson 2 og Pétur Elíasson. Maður leiksins: Davíð Þorsteinsson.