Fréttir

Grindavík - Keflavík á föstudag kl. 18:30
Knattspyrna | 23. ágúst 2012

Grindavík - Keflavík á föstudag kl. 18:30

Föstudaginn 24. ágúst leika Grindavík og Keflavík í síðustu umferð B-riðils 1. deildar kvenna.  Leikurinn fer fram á Grindavíkurvelli og hefst kl. 18:30.  Fyrir leikinn er Keflavík í 6. sæti riðilsins með 14 stig en Grindavík er í 3.-5. sæti með 19 stig.  Fram og HK/Víkingur hafa þegar tryggt sér tvö efstu sæti riðilsins og sæti í úrslitakeppninni.  Dómari leiksins verður Eðvarð Atli Bjarnason og aðstoðardómarar þeir Ægir Magnússon og Sigurður Smári Hansson.

Þó undarlegt sé hafa Keflavík og Grindavík ekki mæst oft í opinberum leikjum í kvennaflokki.  Þau mættust reyndar fyrst í deildarkeppni árið 1972 og aftur árið 1974; Grindavík vann fyrri leikinn 2-0 og Keflavík þann seinni með sömu markatölu.  Liðin mættust síðan í bikarkeppninni árið 2005 og þá vann Keflavík 8-1 sigur á heimavelli.  Fyrr í sumar gerðu liðin svo 2-2 jafntefli á Nettó-vellinum í fyrri leik sínum í deildinni.  Heiðrún Þorsteinsdóttir skoraði annað mark Keflavíkur en hitt var sjálfsmark en mörk Grindavíkur gerðu þær Sarah Wilson og Margrét Albertsdóttir.  Reyndar hafa þessi félög mæst oftar en þá í sameiginlegum liðum eins og RKV og GRV.