Grindavík og Keflavík
Það var flott umgjörð og dagskrá í fyrri leik Suðurnesjaliðanna í Pepsi-deildinni þegar Keflvíkingar sóttu Grindvíkinga heim á sunnudagskvöld. Mikið var ég stolt af Keflvíkingum sem fjölmenntu á völlinn og styrktu um leið unga hetju úr Grindavík sem hefur barist við hvítblæði síðustu árin. Þegar maður leit yfir stúkuna þá var ekki að sjá hverjir væru fleiri Keflvíkingar eða Grindvíkingar (held reyndar að við höfum verið fleiri). Við tókum þátt í því að slá áhorfendamet á Grindavíkurvöll, það er eitthvað til að vera ánægður og stoltur af. Stuðningsmenn Keflavíkur létu ekki sitt eftir liggja og lögðu fram styrki og tóku þátt í uppboði á treyjum og boltum. Það er eftirtektarvert hversu mikil samstaða ríkir í Grindavík og þeir mega vera stoltir af þessum leik og hversu margir tóku þátt og lögðu verkefninu lið. Það var tekið vel á móti okkur Keflvíkingum og við boðnir velkomnir. Stuðningsmenn okkar í Pumasveitinni voru fremstir í flokki og tóku virkan þátt í dagskránni og voru félagi sínu til sóma. Þeir áttu svo stúkuna allan leikinn og það er það sem er svo frábært. Allir útileikir hjá okkur eru eins og heimaleikir og ekki veitir liðinu af stuðningi á útivöllum, það hlýtur að fara að styttast í útisigur. Það er okkur sönn ánægja hjá Knattspyrnudeild Keflavíkur að hafa verið svona öflugur þátttakandi í þessari styrktarhátíð til styrktar Frank Bergmann og vonum við að okkar framlag geti stutt hann og fjölskyldu hans í þessari erfiðu baráttu sem þau há við þennan erfiða sjúkdóm. Við óskum honum góðs bata og vonum að knattspyrnan veiti honum gleði og vonumst til að sjá hann aftur á vellinum sem leikmaður í framtíðinni.
Eitt mjög stórt klapp fyrir stuðningsmönnum Keflavíkur og svona verður þetta bara áfram í sumar í stúkunni.
Jákvæður stuðningur er það sem við viljum!!!
Með Evrópukveðju,
Hjördís Baldursdóttir