Fréttir

Knattspyrna | 6. september 2011

Guðjón Árni er fyrirmyndarleikmaður Keflavíkur

Knattspyrnuáhugamenn hafa væntanlega tekið eftir herferð gegn munntóbaksnotkun sem hefur verið í gangi undanfarið.  Einn leikmaður hvers liðs í efstu deild gengur þar fram fyrir skjöldu og hvetur ungt knattspyrnufólk og aðra sem tengjast knattspyrnunni til að láta munntóbakið vera.  Fyrirmyndarleikmaður Keflavíkur er Guðjón Árni Antoníusson en hér fylgir með kynning fótbolta.net sem kynnir alla fyrirmyndarleikmennina.

,,Það var haft samband við mig og spurt hvort ég vildi taka þátt í þessu verkefni og ég hugsaði mig ekki tvisvar um því mér finnst þetta vera gott málefni,'' svaraði Guðjón Árni Antoníusson sem leikur með Keflavík en Guðjón Árni er áttundi í röð fyrirmyndarleikmanna sem sem kynntur er hér á Fótbolta.net og notar hann ekki munntóbak.

,,Þetta getur orðið að stóru vandamáli ef þau yngri feta í fótspor eldri leikmanna og því hefur þetta verkefni mikla þýðingu fyrir mig. Ég er til dæmis kennari og ég passa mig á að vera fyrirmynd fyrir krakkana og mér finnst það líka gaman,'' sagði Guðjón Árni um það hvaða þýðingu það hefur fyrir hann að vera fyrirmyndarleikmaður.

,,Ég sé þetta alveg en þó ekki á æfingunum sjálfum en inni í klefa og fyrir og eftir æfingar en mig hefur aldrei langað til þess að prófa og mér finnst það ekki passa við íþróttaiðkun.''

,,Ég veit um einn sem notaði munntóbak og hann þurfti að fara í mörg hundruðþúsund króna aðgerð í góm og fá plast góm þar sem hann var kominn með holu upp í nef. Einnig skemmir þetta tennurnar og eykur líkur á krabbameini,'' sagði Guðjón Árni að lokum.

Fyrimyndarleikmaðurinn - Herferð gegn munntóbaksnotkun.
Fyrirmyndarleikmaðurinn er átaksverkefni gegn munntóbaksnotkun knattspyrnumanna og ungs fólks, á vegum Embættis Landlæknis, KSÍ, ÍSÍ, UMFÍ og ÁTVR. Einnig er herferðinni beint gegn notkun tóbaks á íþróttasvæðum.

Forustumenn íþróttafélaganna eru hvattir til að fylgja eftir ályktun Íþrótta og sérsambanda, að útrýma allri notkun tóbaks úr öllu íþróttastarfi. Átakið mun standa frá júní til loka september, eða yfir keppnistímabil knattspyrnumanna. Ástæða þess að átakinu er beint að knattspyrnumönnum er að þar hefur munntóbaksnotkun breiðst afar hratt út á síðustu misserum. Samkvæmt könnun meðal knattspyrnumanna, kemur fram að allt að 30% leikmanna hafi notað eða séu að nota Munntóbak. Vitað er að helsta ástæða þess að ungt fólk byrjar munntóbaksnotkun er hópþrýstingur eða fyrir tilstuðlan fyrirmynda.

Átakið fer fram með þeim hætti að valinn verður einn leikmaður frá hverju liði í efstu deild og fær hann titilinn fyrirmyndarleikmaður. Sá leikmaður er ekki að neyta tóbaks. Hlutverk leikmannsins er að vera fyrirmynd yngri iðkenda og ungs fólks. Í dag kynnir Fótbolti.net fyrirmyndarleikmanninn Guðjón Árna Antoníusson.