Fréttir

Guðjón Elí Bragason- Minning
Knattspyrna | 29. mars 2021

Guðjón Elí Bragason- Minning

Aldrei láta ljósið sem skín á þig vera bjartara en ljósið sem skín frá þér.

Guðjón Elí Bragason lést þann 19. mars síðastliðinn, kvöldið sem eldgosið hófst, eftir baráttu við veikindi og verður jarðsunginn í dag.

Guðjón fæddist þann 13. júní, 2002 og hefði því orðið 19 ára í sumar. Hann æfði og lék knattspyrnu með yngri flokkum Keflavíkur eftir að hafa komið til okkar frá nágrönnunum í Reyni 13 ára gamall. Auk þess stundaði hann í seinni tíð æfingar á Afreksbraut Fjölbrautaskólans. Okkur undirrituðum, sem nutum þeirrar sönnu gæfu að koma að þjálfun hans langar að minnast hans með nokkrum orðum.

Hugtakið Sannur Keflvíkingur notum við til lýsingar á þeim iðkendum félagsins sem eru öðrum til eftirbreytni á allan hátt, iða af leikgleði, standa sína vakt af dugnaði og nota hvert tækifæri til að smita aðra krafti og láta gott af sér leiða. Guðjón Elí uppfyllti allar kröfur sem „Sannur“. Hann var kurteis og kom fram við alla af virðingu, hvort sem um var að ræða okkur þjálfarana, samherja, andstæðinga, dómara, starfsfólkið í Reykjaneshöllinni eða aðra. Hann vakti fljótlega athygli og aðdáun fyrir ýmsa hæfileika innan vallar, ekki síst ástríðu, afburða leikskilning og leikni með boltann. Hann logaði af áhuga varðandi allt sem snéri að leiknum og var samherjum sínum hvatning, jafnt með fordæmi og orðum. Utan vallar skilaði einstök samskiptahæfni honum miklum vinsældum og virðingu annarra iðkenda og sá hæfileiki að tengjast öllum í stórum hóp lýsir honum ef til vill betur en nokkuð annað. Eftir eina æfingu með Guðjóni vissu liðsfélagar og þjálfarar nákvæmlega hvers konar gæða-drengur væri þar á ferð og við hverju mætti búast af honum þegar kom að framlagi og félagsskap. Hann var einn af þeim sem hafði uppörvandi áhrif á okkur í hvert sinn sem við hittum hann og slíkir kostir lýsa fólki af dýrmætustu tegund.

Við munum ekki eftir honum öðruvísi en jákvæðum og glöðum á lundina og það jafnvel eftir að hann var byrjaður að takast á við erfiðustu aðstæðurnar, sjálfa baráttuna við krabbameinið. Svo jákvæður og uppörvandi var hann að einhvern veginn trúðum við aldrei á annað en að hann kæmi út sem sigurvegari. Veruleikinn var annar og harðari og eftir sitjum við hin sem söknum, í einhvers konar stríði við tilveruna með æðruleysið eitt að vopni.

Algjörlega einstakur vinur er horfinn á braut og eftir situr vandfyllt skarð í félaginu okkar. Minningin um brosmildan og lífsglaðan dreng og birtuna sem hann færði í líf okkar mun hins vegar lifa um ókomna tíð, okkur Keflvíkingum sem honum kynntumst til innblásturs í lífi, starfi og leik.

Við vottum fjölskyldu, ættingjum, vinum, liðsfélögum og Keflvíkingum öllum okkar innilegustu samúð.

Unnar Stefán Sigurðsson (2. fl.)

Alexander Magnússon (2. fl.)

Sigurður Hilmar Guðjónsson (2. fl.)

Jón Ragnar Ástþórsson (2. fl.)

Gunnar Magnús Jónsson (Afreksbraut FS)

Eysteinn Hauksson (Afreksbraut FS)

Ragnar Steinarsson (3. fl.)

Jóhann Birnir Guðmundsson (3. fl.)

Lars Jónsson (3. fl.)

Skúli Sigurðsson (3. fl.)

Arngrímur Jóhann Ingimundarson (4. fl)

Jóhann Steinarsson (4. fl)

Hólmar Örn Rúnarsson (4. fl)

 

 

 

Myndasafn