Guðjón í landsliðið
Guðjón Árni Antoníusson hefur verið valinn í landsliðshóp Íslands sem mætir Færeyingum í vináttulandsleik þann 22. mars. Hann er einn af átta nýliðum í hópi Ólafs Jóhannessonar sem teflir fram ungu liði að þessu sinni. Það er óhætt að segja að þetta val sé verðskulduð viðurkenning fyrir Guðjón sem átti frábært tímabil með Keflavík síðasta sumar. Hann lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2003 og hefur síðan verið einn traustasti leikmaður liðsins. Guðjón á að baki 109 deildarleiki (7 mörk), 18 bikarleiki (3 mörk) og 9 leiki í Evrópukeppnum. Hann varð m.a. bikarmeistari með Keflavík árin 2004 og 2006 og skoraði eftirminnilegt mark í úrslitaleiknum gegn KR árið 2006. Það verður gaman að sjá strákinn gegn Færeyingum og ekki er ólíklegt að hann fái þar að takast á við Símun nokkurn Samuelsen sem verður í liði andstæðinganna.
Guðjón sjálfur.
(Mynd af fótbolti.net)