Fréttir

Knattspyrna | 22. desember 2004

Guðjón kominn til starfa

Í gær var Guðjón Þórðarsson þjálfari kynntur til sögunnar hjá Keflavík.  Á fréttamannafundi sem haldinn var í K-húsinu við Hringbraut stimplaði Guðjón sig inn til starfa á Íslandi eftir fimm ár þar sem hann hefur mestan tíman verið knattspyrnustjóri á Englandi.  Guðjón var m.a.  knattspyrnustjóri Stoke í þrjú ár og kom liðinu upp í fyrstu deild og gerði liðið að bikarmeisturm neðri deilda á Englandi.  Þá var hann um tíma hjá Barnsley og náði eftirtektarverðum árangri með liðið við ótrúlega erfiðar ástæður.  Töluverður fjöldi blaða- og fréttamanna var á fundinum og greinilegt að með komu Guðjóns til Keflavíkur mun umfjöllun um Keflavík og Guðjón verða meiri en áður í fjölmiðlum.

Síðdegis hélt Guðjón fund með leikmönnum meistaraflokks Keflavíkur.  Þar mættu 24 leikmenn og hlustuðu með athygli á þau áform sem Guðjón hefur uppi um þjálfun liðsins og uppbyggingu þess.  Hann tók það skýrt fram við leikmenn að þeir sem sýndu áhuga og vilja fengju allir þá möguleika með liðinu sem þeim bæri.  Það væri fyrst og fremst undir mönnum sjálfum komið hvort þeir ættu möguleika.  Með 100% þáttöku í æfingum væru allir möguleikar opnir.  Guðjón var mjög yfirvegaður á fundinum og skýrði mál sitt vel, hann tók reyndar fram við drengina að þessi sparihlið hans væri ekki sú sem þeir ættu eftir að kynnast á næstu vikum og mánuðum.  Hans metnaður með liðið lægi fyrst og fremst í því að koma leikmönnum í topp form, liðinu í fremstu röð og það væri fyrst og fremst vinna og aftur vinna.  Síðan ræddi Guðjón við leikmenn í almennu spjalli; vel fór á með mönnum og mikil eftirvænting er hjá okkur fyrir samstarfinu við Guðjón.

Myndir: Jón Örvar Arason


Þjálfarinn og formaðurinn.


Kobbi og Guðjón á spjallinu.


Guðjón spjallar við Stöð 2.


Rúnar býður Guðjón velkominn til starfa.


Hlustað á Guðjón.


Guðjón og Rúnar ræða við leikmenn.


Gummi og Stebbi, þéttir að vanda.


Jónas og Guðjón með jólaskeggið.


Hafsteinn Rúnar Helgason gekk til liðs við Keflavík í haust
.