Guðmundur bestur í Landsbankadeildinni
Guðmundur Steinarsson var valinn besti leikmaður Landsbankadeildar karla í sumar en valið var tilkynnt á lokahófi deildarinnar sem haldið var á laugardaginn. Þetta er í fyrsta skipti sem leikmaður Keflavíkur hlýtur þennan titil en hann var fyrst veittur árið 1984. Reyndar hafa tveir Keflvíkingar fengið verðlaunin; fyrsta árið sem þau voru veitt komu þau í hlut Bjarna Sigurðssonar sem þá lék með ÍA og árið 1996 var komið að Gunnari Oddssyni en hann var þá leikmaður Leifturs. Á hófinu fékk Guðmundur einnig afhent verðlaun sem markahæsti leikmaður deildarinnar.
Keflvíkingar voru áberandi í valinu sem tilkynnt var daginn fyrir lokahófið. Kristján okkar Guðmundsson var valinn þjálfari ársins og hinir frábæru stuðningsmenn okkar fengu verðskuldaða viðurkenningu sem bestu stuðningsmennirnir í Landsbankadeildinni. Þá eru þrír leikmenn Keflavíkurliðsins í liði ársins en það eru þeir Guðjón Árni Antoníusson og Hólmar Örn Rúnarsson auk Guðmundar. Það eru sérstakar valnefndir á vegum KSÍ sem standa á bak við þessar viðurkenningar í Landsbankadeildum karla og kvenna. Eins og komið hefur fram veita þær viðurkenningar fyrir nokkrar umferðir í einu og heildarfjöldi atkvæða yfir sumarið ræður svo vali á úrvalsliðunum og þjálfurum og stuðningsmönnum ársins.
Við óskum Guðmundi, Guðjóni, Hólmari, Kristjáni og stuðningsmönnum okkar til hamingju með viðurkenningarnar sem við vitum að verða hvatning til að gera enn betur næsta sumar.
Myndir: Jón Örvar
Guðmundur með viðurkenningar sínar.
Guðmundur ásamt fleiri verðlaunahöfum.