Fréttir

Knattspyrna | 25. maí 2005

Guðmundur í 100 leiki

Leikurinn gegn ÍBV á dögunum var 100. leikur Guðmundar Steinarssonar fyrir Keflavík í efstu deild.  Guðmundur lék sinn fyrsta deildarleik þann 29. ágúst 1996 þegar hann kom inn á sem varamaður í 2-1 sigri gegn Val á Keflavíkurvelli.  Í þessum 100 leikjum hefur Guðmundur skorað 31 mark og er hann í 5.-6. sæti yfir markahæstu leikmenn Keflavíkur í efstu deild ásamt Jóni Ólafi Jónssyni.  Það þarf ekki að taka fram að faðir Gumma, Steinar Jóhannsson, trónir efstur á þeim lista með 72 mörk þannig að strákurinn á nokkur mörk eftir til að ná þeim gamla.  Guðmundur hefur einnig leikið 11 leiki fyrir Fram þannig að hann á að baki 111 leiki í efstu deild.  Auk deildarleikjanna hefur hann leikið 18 bikarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim 9 mörk en Guðmundur varð auðvitað bikarmeistari 1997 og 2004.  Við óskum fyrirliðanum til hamingju með áfangann og vonum að hann eigi eftir að bæta mörgum leikjum við þessa tölu.


Guðmundur í 100. leiknum úti í Eyjum.
(Mynd: Jón Örvar Arason)