Fréttir

Knattspyrna | 6. maí 2010

Guðmundur í viðtali á fótbolti.net

Drengirnir á fótbolti.net gera það ekki endasleppt við að undirbúa knattspyrnuaðdáendur fyrir komandi tímabil.  Á dögunum birtu þeir skemmtilegt viðtal við Guðmund Steinarsson sem við birtum hér með þeirra leyfi.

Guðmundur Steinarsson verður í nýju hlutverki í liði Keflavíkur sem er spáð 4. sæti af sérfræðingum Fótbolta.net í sumar. Hann fær það hlutverk að spila fremst á miðjunni en ekki í framlínunni eins og til þessa á ferlinum. Guðmundur settist niður með Fótbolta.net á meðan hann stýrði íþróttaæfingu hjá unglingum í Keflavík á dögunum og spjallaði um ferilinn og komandi sumar.

,,Þessi síðustu tvö ár hafa verið svolítill rússíbani og það eru ekki margir sem eru að upplifa svona mikið. Þetta er búinn að vera virkilega gaman og skemmtilegur tími," segir Guðmundur sem var frábær sumarið 2008 og fór fá kallið í íslenska landsliðshópinn, fór í atvinnumennsku hjá Vaduz í Liechtentein og sneri svo aftur heim í Keflavík.


Gríðarlegur heiður að vera valinn bestur

Tímabilið 2008 var ótrúlegt hjá liði Keflavíkur og Guðmundi sjálfum sem endaði sem markahæsti maður mótsins og var einnig valinn leikmaður ársins í deildinni. Keflavík virtist líka með pálmann í höndunum að verða Íslandsmeistarar en rétt missti af því í lokin.
,,Fyrir mig persónulega var þetta frábært tímabil að verða markakóngur og vera svo valinn af öðrum leikmönnum besti leikmaður mótsins. Það er einn mesti heiður sem þú getur fengið sem íþróttamaður og gríðarlega mikill heiður," segir Guðmundur.

,,Ég hefði viljað landa þessum stóra titli og við komumst ansi nálægt því. Við vorum spútnik lið mótsins því okkur var spáð 6 - 7. sæti fyrir mót og komum mörgum í opna skjöldu og náðum að stimpla okkur inn sem eitt af þessum toppliðum sem margir reikna með í dag. Það er skref sem félagið þurfti að taka."

Fyrir lokaumferð mótsins var Keflavík enn líklegast til að landa titlinum og þurfti í raun aðeins eitt stig gegn Fram í lokaumferðinni og þó það tækist ekki varð FH að vinna Fylki á Fylkisvelli. Það versta gerðist svo, FH vann í Árbænum og Fram vann Keflavík svo titilinn fór til FH.
,,Þó ég vilji ekki lenda í því að tapa svona leik þá er það þetta sem gerir þennan leik skemmtilegan og að svona margir áhorfendur fylgjast með honum. Það er þetta óvænta. FH-ingar fögnuðu þarna glæstum sigri eftir að hafa unnið upp nokkurra stiga forskot og landað titlinum. Þetta er það sem fólk vill sjá í boltanum," segir hann.


Fögnuðurinn á móti FH var alveg eðlilegur

Keflavík var samt með 8 stiga forskot þegar þeir áttu sjálfir tvo leiki eftir í mótinu en FH átti þá þrjá leiki eftir, þar af var innbyrðis viðureign liðanna.
,,Við vissum alltaf að við ættum eftir að spila við FH svo 8 stig eins og taflan leit út voru falskar vonir. FH-ingar áttu leik inni og niðurröðunin á leikjum var mjög sérstök, að eitt lið ætti einum leik meira í titilbaráttu þegar svona stutt var eftir af móti. Þetta spilaðist þannig og var algjörlega í höndum okkar sjálfum og við klúðruðum því," segir hann.

Í innbyrðisviðureigninni í næst síðustu umferðinni komust FH-ingar í 2-0 á Kaplakrikavelli en Keflavík jafnaði með tveimur mörkum varamannsins Magnúsar Sverris Þorsteinssonar. Sumir vildu meina að Keflavík hafi fagnað jöfnunarmarkinu of mikið en jafntefli hefði dugað Keflavík til að vinna titilinn svo margir áhorfendur fylgdu þeim í Kaplakrikann. FH átti svo leik í miðri viku, fyrir lokaumferðina, gegn Breiðablik og varð að vinna, annars yrði titilinn Keflvíkinga. Mikið var gert úr því að Keflavík horfði á leikinn í stað þess að fara á æfingu.
,,Fögnuðurinn á móti FH var alveg eðlilegur. Við vorum 2-0 undir og vinnum það upp og jöfnum leikinn á stuttum tíma. Leikurinn var ekkert búinn en fögnuðurinn var samt alveg eðlilegur, að ná að vinna upp tveggja marka forskot í svona stórum leik. Ég held að menn sjái það alllstaðar úti í heimi að menn fagna svona. Eftir á að hyggja held ég að þetta hafi mest verið reynsluleysi. Það hafi enginn af okkur staðið í því að vera í titilbaráttu og liðið var reynslulítið á þeim vettvangi."


Ekki hægt að vera bestur og markahæstur á hverju ári

Eftir að hafa ekki átt gott tímabil sumarið 2007 kom allt annar Guðmundur Steinarsson til leiks sumarið 2008 þar sem hann var alveg frábær. En hvað olli þessari umbreytingu?
,,2007 tímabilið var ekki mitt besta tímabil og ég fór því í smá naflaskoðun. Hverju ég ætlaði að reyna að ná út úr fótboltanum og hvað ég væri að gera. Ég átti nokkra fundi með Kristjáni Guðmundssyni þjálfara og fleiri góðum mönnum og endurskipulagði mig aðeins," útskýrir hann.

,,Það er ekki alltaf hægt að segja að maður verði bestur og markahæstur á hverju tímabili en ég sýndi meira mitt rétta andlit þetta tímabil. Ég sá ekki eftir þeim auka tíma sem fór í æfingar. Ég léttist helling og var bara betur líkamlega á mig kominn og meira undir það kominn að spila fótbolta. Það skilaði fyrst og fremst var undirbúningurinn andlega og líkamlega."


Þegar allt kom til alls klikkaði þjálfarinn

Eftir tímabilið 2008 var Guðmundur líka orðinn eftirsóttur og stöðugt orðaður við félög í Evrópu. Hann fór á reynslu hjá Start í Noregi og fann einnig fyrir áhuga í Danmörku og Bandaríkjunum.
,,Svo voru 2 lið í svissnesku úrvalsdeildinni sem höfðu mikinn áhuga og ég þurfti bara að velja. Þessi tvö lið í svissnesku deildinni voru hvað ágengust og sýndu mestan áhuga og á endanum valdi ég Vaduz frá Liechtenstein," segir hann.

,,Það leit mjög vel út en þegar allt kom til alls klikkaði þjálfarinn. Allt annað er í lagi þar, umgjörðin og aðstaðan er mjög fín. Félagsskapurinn og allt það, þetta er ógleymanlegur tími. Akkurat núna er það að koma í ljós sem ég er að segja því það er búið að reka þjálfarann og allt hans hyski. Tíminn þarna var mjög skemmtilegur og ógleymanlegur."

Auk Guðmundar gengu tveir aðrir Íslendingar til liðs við Vaduz á sama tíma. Það voru landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson og framherjinn Stefán Þór Þórðarson.
,,Ég þekkti Gulla fyrir og kannaðist aðeins við Stebba. Við náðum að kynnast betur og við þrír Íslendingarnir náðum mjög vel saman og eyddum miklum tíma saman fjölskyldurnar. Það var kannski það sem gerir þetta skemmtilegra í minningunni, tíminn fyrir utan fótboltavöllinn sem var stórkostlegur. Enn þann dag í dag erum við í sambandi og hittumst annað slagið og rifjum upp tímann. Það eitt og sér var einstaklega skemmtilegt."

Þar sem Liechtenstein er lítið land leikur Vaduz í svissnesku deildinni sem er í næsta nágrenni. Gengi liðsins þar var frekar dapurt og þjálfarinn virtist ekki valda verkefninu.
,,Félag sem er atvinnumannafélag ætti að hafa eitthvað skipulag í gangi, sérstaklega á velli. Miðað við allan þann tíma sem við æfðum, ég hef aldrei verið á jafn mörgum æfingum og jafn löngum. Við vorum eins og hauslausar hænur leik eftir leik og æfðum alltof mikið . Það var það sem varð liðinu að falli því það var fullt af hæfileikaríkum fótboltamönnum þarna. Það sést kannski í dag að af 26 manna hóp eru 2 eftir. Þeir 24 sem eru farnir eru lang flestir að plumma sig vel."


Hafnaði bandarísku meisturunum

Eftir að dvöl Guðmundar hjá Vaduz lauk kom hann heim til Íslands að nýju og gekk til liðs við Keflavík. Hann hafði reyndar á borðinu mjög gott tilboð en hafnaði því.
,,Ég var með samning frá Real Salt Lake í MLS deildinni kláran á borðinu sem ég ákvað að taka ekki. Ég hefði bara þurft að hoppa upp í flugvél og byrja að spila en kýldi ekki á það tækifæri. Ég var ekki alveg tilbúinn í annað ævintýri strax eftir ævintýrin í Liechtenstein," segir hann.

,,Þeir enduðu svo sem meistarar í MLS deildinni og það hefði verið mikil stemmning í kringum þann hóp og það allt. Hérna innanlands kom ekkert annað til greina en Keflavík. Ég er Keflvíkingur og líður vel hérna, og vissi vel hvað ég er að fara," segir hann en kemur til greina að fara aftur út?

,,Ég er ekkert að æsa mig yfir því. Ég er orðinn þrítugur og fyrst og fremst að huga að liðinu hérna. Það yrði eitthvað stórkostlegt að koma upp ef ég ætti að fara að rífa upp fjölskylduna og fara aftur. Ég er ekki að sjá það gerast. "

,,Ég hugsaði þetta með að fara til Bandaríkjanna því ég var ekki kominn með leikheimild með Keflavík strax og hefði í raun getað farið eitthvað annað. Það fóru tvær vikur í umhugsunarfrest, þetta var mjög spennandi en ég ákvað á endanum að vera hérna á klakanum."


Alltof miklar væntingar á liðið

Árið 2000 var Guðmundur markakóngur í efstu deild og endurtók svo leikinn árið 2008. Hann hefur hinsvegar átt misjöfn ár í markaskorun en hvað veldur því?
,,Ég veit eiginlega ekki hver skýringin getur verið. Fyrir utan þessi tvö tímabil hef ég verið með mark í þriðja hverjum leik og það hefur loðað við mig að eiga alltaf nokkrar stoðsendingar en svo hafa komið þessar sprengjur á þessum tveimur tímabilum. Ég veit ekki ástæðuna fyrir því að ég er ekki markahærri á hverju tímabili. Ef ég hefði svarið við því þá myndi ég leita aftur í það sama."

Eftir að hafa slegist fram á lokamínútu um titilinn árið 2008 var síðasta ár nokkur vonbrigði hjá Keflavík sem endaði í sjötta sæti deildarinnar.
,,Okkur var spáð titlinum af ansi mörgum þrátt fyrir að liðið hafi misst dágóðan leikmannahóp. Það voru alltof miklar væntingar á liðið og manni sýndist þegar maður leit utan á þetta að væntingarnar sem hópurinn gerði á sig sjálfur og okkar nánustu, stuðningsmenn og styrktaraðilar, voru of miklar og það hefur líklega farið með það. Allt sumarið fór í að elta þessar væntingar og kannski var þetta of mikið."


Eigum að geta barist meðal þeirra bestu

Nú eru bara nokkrir dagar í að Íslandsmótið fari af stað og fyrsti leikur Keflavíkur í Pepsi deildinni er á þriðjudag gegn Breiðablik. Guðmundur býst við spennandi móti.
,,Ég held að ansi mörg lið séu að horfa í það fyrir tímabilið að vera í toppbaráttu og það endar bara með því að það verður bara eitt lið rosalega ánægt en 3-4 verða svekkt. Ég met stöðu okkar vel.Við erum búnir að taka okkur í gegn. Það var ákveðin naflaskoðun með nýjum þjálfara og margir leikmenn eru búnir að endurskoða sín mál."

,,Við eigum að geta barist á meðal þeirra bestu í sumar, en við erum ekki með eins stóran hóp og FH, KR og jafnvel Valur. Það þurfa mun fleiri hlutir að ganga upp hjá okkur, að halda leikmannahópnum heilum og menn þurfa að vera í toppstandi svo við séum að klára þetta frá A-Ö. En það er allt hægt í þessu, ef menn hugsa vel um sig og skila sinni vinnu."


Nýir og ferskir tímar með breyttu þjálfarateymi

Keflavík kemur til leiks með nýjan þjálfara í fyrsta sinn í fimm ár en Willum Þór Þórsson tekur við liðinu af Kristjáni Guðmundssyni og hefur Þór Hinriksson sér til aðstoðar.
,,Willum og Þór eru búnir að koma sterkir inn í þetta. Þeir eru ekki að finna upp hjólið en koma með aðrar áherslur og breyta hugsunarhætti hjá þeim mönnum sem það þurfti til. Til þess að fá þetta 'winner' hugarfar."

,,Okkur hefur gengið ágætlega í vetur og hann er búinn að vera að fínpússa leikstíl liðsins. Við höfum verið með þann stimpil á okkur að spila frekar fyrir áhorfendur en að láta úrslitin telja of mikið. Hann er aðeins að koma með breytt hugarfar og breyta leikstíl liðsins. Það tekur smá tíma að slípa það. Það koma þarna nýir og ferskir tímar."

,,Kristján var búinn að vera í fimm ár og þetta var orðin svolítil rútína hjá honum. Við vorum að fara í gegnum skipulag sem virkaði og hentaði liðinu ágætlega og menn voru farniar að þekkja inn á, bæði æfingar og undirbúning hjá honum. Menn þurfa oft að fá eitthvað nýtt til að halda ferskleikanum og það er það sem er að gerast núna, menn eru ferskari og meira á tánum með mann sem þeir þekkja ekki eins vel."

,,Við höfum ekki farið í eitt einasta útihlaup, við erum búnir að vera á mjög góðum tempóæfingum í Reykjaneshöll og svo erum við með einn spinning tíma í viku. Fyrst og fremst er þetta að vinna með bolta í höllinni, og hann lætur okkur alveg heyra það ef við gerum það ekki nógu vel. Ég held að menn séu meðvitaðir um að það er betra að vinna inni á grasinu en að vera úti að hlaupa svo menn skila þeirri vinnu bara þeim mun betur."


Kominn í nýja stöðu á vellinum

Sjálfur er Guðmundur að fara í miklar breytingar því eftir að hafa leikið allan sinn feril í framlínu liðsins mun hann nú fara aftar á völlinn og spila sem fremsti miðjumaður í leikkerfinu 4-3-3.
,,Ég er búinn að spila allt undirbúningstímabilið á miðjunni hjá Willum. Það er ný staða fyrir mig og ný áskorun og ég þarf aðeins að sjá völlinn öðruvísi, ég sé meira af vellinum núna eftir að hafa verið meira með bakið í andstæðingana og markið," segir Guðmundur.

,,Þetta er búið að vera gaman og fyrir mig er fyndið að ég hef aldrei þótt duglegur leikmaður en er nú kominn í stöðu þar sem þess er krafist að ég fari bæði fram og til baka. Það er gaman að það gerist núna á gamals aldri."

,,Ég hef fengið að spila þetta og Willum hefur sagt að hann velji alltaf besta liðið hverju sinni svo meðan ég er inni í því er ég ágætlega sáttur og hlýt að vera að gera eitthvað rétt. Ég hef verið fremstur af miðjumönnunum en þarf samt að skila mínu. Þetta er skemmtilegt hlutverk og til að geta sinnt þessu þarf maður að vera í góðu standi svo þetta er ögrandi líka."

,,Líkamlega er ég betur á mig kominn núna en 2008 en svo er spurning hvort ég nái að sýna það á vellinum. Ég er aðeins reynslumeiri og er í öðru hlutverki. Ef ég næ sama markafjölda úr þessari stöðu og 2008 þá verð ég gríðarlega ánægður."


Lét Arsenal manninn bera Liverpool fyrirliðaband

Á meðan Guðmundur ræðir við Fótbolta.net er hann nokkrum sinnum truflaður af ungum Keflvíkingum sem hann var að leiðbeina í íþróttasal. Við spurðum hann út í starfið.
,,Þetta er reyndar eini tíminn í vikunni sem ég kenni íþróttir. Þetta er valáfangi sem krakkarnir velja til að stytta sér stundir. Hér er aðallega reynt að hafa gaman og kynna þau fyrir sem flestum íþróttum. Það endar yfirleitt í einhverri keppni milli mín og þeirra," útskýrir hann.

,,Ég er annars umsjónarmaður ungra drengja í 9. og 10. bekk sem eru með smá námsörðuleika og reyni að leiðbeina þeim eftir bestu getu. Það er rosalega gaman, mjög gefandi. Ég er með frábæra stráka og einstaklinga sem stytta mér stundir, við höfum náð mjög vel saman í vetur."

Guðmundur er harður stuðningsmaður Liverpool og það vakti athygli sumarið 2008 þegar hann bar fyrirliðaband með merki Liverpool í leikjum Keflavíkurliðsins.
,,Ég gerði þetta svolítið vegna þess að Guðjón Árni var varafyrirliði og hann er Arsenal maður. Hann þurfti því alltaf að bera Liverpool merkið ef ég fór útaf. Það var svolítið til gamans gert að stríða honum. Hann sneri því alltaf við svo þegar ég rétti honum það var ég farinn að snúa því fyrst við. Hann sneri því nefnilega við ómeðvitað og var því farinn að bera Liverpool merkið utan á þessa síðustu leiki. "

Keflavík leikur heimaleiki sína á Njarðvíkurvelli fyrstu tvo mánuðina allavega vegna þess að nú nýlega var Keflavíkurvöllur tekinn upp og bíður þess nú að vera klár.
,,Það verður óneitanlega spes að spila á Njarðvíkurvelli. Velli sem er ekki okkar heimavöllur. En við verðum bara að líta þetta jákvæðum augum og gera þetta að okkar heimavelli. Það er það eina sem er í boði. Menn eru farnir að horfa á að við þurfum kannski að vera þarna í allt sumar svo það er ekkert annað í boði en gera sem best úr þessu og gera þetta okkar heimavöll. Við vorum með besta árangurinn á heimavelli í fyrra ásamt FH-ingum. "


Myndir: Jón Örvar