Fréttir

Knattspyrna | 28. maí 2005

Guðmundur klifrar upp markalistann

Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflavíkur, hefur farið vel af stað í Íslandsmótinu í ár og fylgt eftir góðu gengi á undirbúningstímabilinu.  Pilturinn er í feiknaformi og hefur skorað 3 mörk í fyrstu þremur umferðunum í Landsbankadeildinni.  Guðmundur hefur nú skorað 33 mörk fyrir Keflavík í efstu deild og er kominn í 5. sæti yfir markahæstu leikmenn félagsins frá upphafi.  Ekki er langt í næsta mann, Þórarinn Kristjánsson er þar með 36 mörk og því varla langt þar til Gummi nær honum.  Heldur lengra er í efstu menn á listanum; Ragnar heitinn Margeirsson skoraði 48 mörk og Óli Þór Magnússon er í 2. sæti með 57 mörk í efstu deild.  Efstur er síðan Steinar Jóhannsson með 72 mörk og Guðmundi vantar því aðeins 39 mörk til að ná pabba sínum!  Maður veit aldrei...  En við óskum fyrirliðanum góðs gengis í næstu leikjum og vonum að markaveislan haldi áfram.


Guðmundur fagnar 33. marki sínu í efstu deild.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)