Guðmundur, Kristján og PUMA-sveitin verðlaunuð
Eftir góða byrjun í Landsbankadeildinni vorum við Keflvíkingar áberandi þegar KSÍ veitti viðurkenningar fyrir fyrstu 7 umferðir deildarinnar. Guðmundur Steinarsson var valinn besti leikmaður umferðanna, Kristján Guðmundsson besti þjálfarinn og PUMA-sveitin tók við verðlaunum fyrir bestu stuðningsmennina. Auk þess voru Guðmundur, Guðjón Árni Antoníusson og Hallgrímur Jónasson allir valdir í úrvalslið umferðanna. Þeir Guðmundur og Kristján fengu báðir afgerandi kosningu hjá dómefndinni en sjö leikmenn Keflavíkur fengu atkvæði í lið umferðanna, fleiri en nokkurt annað félag. Í umsögn dómnefndar segir einnig „Stuðningsmenn Keflvíkinga, Puma-sveitin, hefur staðið þétt við bakið á sínu liði í fyrstu umferðunum og eru vel að stuðningsmannaverðlaununum komnir. Keflvíkingar hafa sýnt stuðning sinn í verki, komið prúðmannlega og drengilega fram og verið félagi sínu til mikils sóma.“ Við óskum verðlaunahöfunum að sjálfsögðu til hamingju en óhætt er að segja að verðlaunin séu mikil viðurkenning fyrir Keflavíkurliðið og góðan leik þess sem af er sumars.
Guðmundur og Kristján með viðurkenningar sínar og Guðni Ívar Guðmundsson aðstoðar pabba sinn.
(Myndir: Hafliði Breiðfjörð / Fótbolti.net)