Fréttir

Guðmundur kveður
Knattspyrna | 22. janúar 2013

Guðmundur kveður

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Guðmundur Steinarsson kvatt Keflavíkurliðið.  Drengurinn fer þó ekki langt en Guðmundur er genginn í raðir nágranna okkar og vina í Njarðvík þar sem hann mun gegna starfi aðstoðarþjálfara auk þess að leika með liðinu.  Knattspyrnudeild vill nota tækifærið og þakka Guðmundi samstarfið og framlag hans til knattspyrnunnar í Keflavík.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um feril Guðmundar með Keflavík enda þekkja stuðningsmenn félagsins vel glæsilega sögu hans með liðinu.  Í tilefni vistaskiptanna koma þó hér til gamans nokkrir punktar um feril Guðmundar með Keflavík.

  • Guðmundur er auðvitað Keflvíkingur í húð og hár og hann lék með öllum yngri flokkum félagsins.  Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 1996, þá 17 ára gamall.  Svo skemmtilega vill til að fyrsti opinberi leikur Guðmundur með meistaraflokki var gegn Keflavík.  Það var leikur gegn U-23 ára liði Keflavíkur í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar þann 20. júní.  Síðan hefur Guðmundur leikið ein fimmtán keppnistímabil með Keflavík.
      
  • Eftir þrjú keppnistímabil með meistaraflokki færði Guðmundur sig til Akureyrar og lék með KA árið 1999.  Hann sneri aftur ári síðar og varð eftir það fastamaður í liði Keflavíkur.  Guðmundur lék um tíma með Brönshöj í Danmörku og síðan með Fram árið 2003.  Hann gekk síðan aftur til liðs við Keflavík ári síðar en haustið 2008 fór Guðmundur til Vaduz í Lichtenstein og lék með liðinu í svissnesku deildinni.  Um mitt sumarið 2009 skipti hann svo aftur í Keflavík.
     
  • Eins og flestum ætti að vera kunnugt er Guðmundur leikja- og markahæsti leikmaður Keflavíkur í efstu deild frá upphafi.  Hann hefur leikið 244 fyrir félagið í efstu deild og skorað 81 mark.  Einnig hefur Guðmundur leikið 37 bikarleiki og skorað 19 mörk auk níu leikja í Evrópukeppnum en þar eru mörkin þrjú.  Auk þess á Guðmundur að baki 82 leiki í deildarbikarnum og hefur skorað í þeim 47 mörk sem hvort tveggja er félagsmet.  Alls hefur hann því leikið 372 mótsleiki fyrir Keflavík og skorað 150 mörk.
       
  • Guðmundur lék með öllum yngri landsliðum Íslands og hann á að baki þrjá A-landsleiki.  Sá fyrsti var hvorki meira né minna en útileikur gegn Brasilíu árið 2000 og Guðmundur lék svo gegn Noregi og Möltu haustið 2008.  Guðmundur er í nokkuð stórum hópi leikmanna sem hafa leikið með öllum þremur yngri landsliðum Íslands og A-landsliðinu en hann er líka í fámennum hópi leikmanna sem hafa einnig leikið með Futsal-landsliði Íslands og hafa því leikið með fimm landsliðum.
     
  • Guðmundur varð markakóngur efstu deildar árin 2000 og 2008.  Árið 2008 var hann einnig kosinn leikmaður ársins í efstu deild og íþróttamaður Keflavíkur.
      
  • Það þarf varla að taka fram að Guðmundur er úr mikilli knattspyrnufjölskyldu.  Hann sló auðvitað markamet föðurs síns, Steinars Jóhannssonar, sem lék með Keflavík á árunum 1969-1982.  Guðmundur á reyndar líka móður sem heitir Sigurlaug Kristinsdóttir og var í stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur árin 1988-1990.  Bróðir Guðmundur, Jóhann, lék einnig með Keflavík og lék m.a. nokkra leiki í efstu deild.  Föðurbróðir Guðmundur er svo Jón Jóhannsson sem lék með Keflvík á 7. áratugnum og var þá helsti markaskorari liðsins.  Móðurafi Guðmundur, Kristinn Gunnlaugsson, lék á sínum tíma með gullaldarliði Skagamanna og bróðir hans og afabróðir Guðmundur er svo Högni Gunnlaugsson sem var fyrirliði fyrstu Íslandsmeistara Keflavikur árið 1964.
     
  • Guðmundur varð bikarmeistari með Keflavík 1997, 2004 og 2006 og hefur því tekið þátt í þremur af fjórum bikarmeistaratitlum félagsins.  Þess má geta að Keflavíkur hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari og í öll skiptin hafa Guðmundur, Steinar faðir hans eða Jón föðurbróðir hans verið leikmenn liðsins.