Guðmundur með 200 leiki og silfurmerki
Á lokahófi Knattspyrnudeildar voru að venju veittar viðurkenningar fyrir áfanga í leikjafjölda með meistaraflokki. Guðmundur Steinarsson fékk þar viðurkenningu fyrir 200 leiki en hann hefur nú leikið 201 leik fyrir Keflavík í efstu deild. Af því tilefni fékk Guðmundur silfurmerki Knattspyrnudeildar en ætlunin er að þeir leikmenn sem leika 200 deildarleiki fyrir Keflavík fái silfurmerki deildarinnar. Guðmundur er þriðji til að fá silfurmerkið eftir að þessi heiðursmerki Knattspyrnudeildar voru tekin upp síðasta vetur. Þeir Steinar Sigtryggsson og Daði Þorgrímsson fengu þá silfurmerkið og í sumar var öllum Íslandsmeisturum Keflavíkur veitt gullmerki deildarinnar.
Guðmundur lék fyrst með meistaraflokki árið 2006. Hann hefur nú leikið 201 leik í efstu deild og skorað í þeim 70 mörk. Þá hefur hann leikið 33 bikarleiki og skorað 18 mörk og 9 leiki í Evrópukeppnum og gert 3 mörk. Auk þess hefur Guðmundur leikið 67 leiki í deildarbikarnum og skorað 39 mörk. Alls hefur hann því leikið 310 opinbera leiki fyrir Keflavík og skorað 130 mörk. Samkvæmt samantekt Víðis Sigurðssonar um leikjafjölda leikmanna Keflavíkur er Guðmundur leikja- og markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi sé miðað við opinbera leiki. Næstur á báðum listum kemur Óli Þór Magnússon með 298 leiki og 113 mörk. Þess verður þó að geta að aðeins er miðað við leiki í Íslandsmóti, bikarkeppni, Evrópukeppni og deildarbikar og því vantar leiki og mörk í Litlu bikarkeppninni og öðrum hálf-opinberum keppnum sem voru að vissu leyti undanfari deildarbikarsins.
Guðmundur tekur við viðurkenningu sinni úr hendi Þorsteins formanns.