Fréttir

Knattspyrna | 9. október 2008

Guðmundur og Elísabet Ester best

Lokahóf Knattspyrnudeildar Keflavíkur var haldið á Ránni síðasta laugardag.  Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir góða frammistöðu og vel unnin störf og knattspyrnufólk fagnaði góðu knattspyrnusumri.  Það voru þau Guðmundur Steinarsson og Elísabet Ester Sævarsdóttir sem voru valin leikmenn ársins hjá meistaraflokki karla og kvenna.  Jón Eysteinsson og Guðrún Ólöf Olsen voru valin efnilegust og leikmenn meistaraflokks kvenna völdu Ingu Láru Jónsdóttur besta félagann.  Danka Podovac fékk viðurkenningu fyrir besta mark ársins sem kom í heimaleik gegn Fjölni en hjá körlunum voru veittar þrjár viðurkenningar fyrir bestu mörkin enda úr nógu að velja.  Það voru þeir Símun Samuelsen (mark í heimaleik gegn Val), Magnús Þorsteinsson (í heimaleiknum gegn FH) og Guðmundur Steinarsson (sem skoraði úr aukaspyrnu á Akranesi) sem deildu verðlaununum.

Markaskorar fengu verðlaun fyrir sinn árangur.  Í meistaraflokki karla fékk Guðmundur Steinarsson gullskóinn og Patrik Redo silfurskóinn en hjá kvennaliðinu hlaut Danka Podovac gullsóinn og Guðný P. Þórðardóttir silfurskóinn.  Hjá meistaraflokki voru einnig veittar viðurkenningar fyrir áfanga í fjölda deildarleikja fyrir Keflavík.  Hjá stelpunum fengu þær Elísabet Ester Sævarsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir, Inga Lára Jónsdóttir, Vesna Smiljkovic allar viðurkenningu fyrir 50 leiki.  Hjá karlaliðinu fengu þeir Guðmundur Steinarsson og Þórarinn B. Kristjánsson viðurkenningu fyrir 150 leiki, Guðjón Árni Antoníusson, Magnús Þorsteinsson og Ómar Jóhannasson fyrir 100 leiki en þeir Jóhann Birnir Guðmundsson og Símun Samuelsen hafa leikið 50 leiki fyrir Keflavík.

Leikmenn 2. flokks fengu viðurkenningar fyrir sína frammistöðu í sumar.  Hjá 2. flokki kvenna er Rebekka Gísladóttir besti leikmaðurinn, Helena Rós Þórólfsdóttir efnilegust og Anna Rún Jóhannsdóttir er besti félaginn.  Hjá strákunum var Magnús Þórir Matthíasson valinn bestur, Fannar Sævarsson efnilegastur og Helgi Eggertsson besti félaginn.

Knattspyrnudeild veitir á hverju hausti Fjölmiðlagyðjuna en hana fær sá fjölmiðill sem þótt hefur skara fram úr varðandi umfjöllun um knattspyrnuna.  Að þessu sinni hlaut Stöð 2 Sport þessi verðlaun fyrir þáttinn Landsbankamörkin og tók Magnús Gylfason við þeim fyrir hönd stöðvarinnar.  Þá fengu dómararnir Magnús Þórisson og Jóhann Gunnarsson viðurkenningu fyrir sína frammistöðu í sumar.  Styrktaraðilar Knattspyrnudeildarinnar fengu þakkir fyrir sitt framlag sem og þeir sem hafa starfað fyrir deildina í sumar.

Við bendum á myndasyrpu frá lokahófinu sem finna má hér á síðunni.


Þorsteinn Magnússon formaður, Guðmundur Steinarsson og
Elísabet Ester Sævarsdóttir leikmenn ársins og Birgir Runólfsson frá Nesprýði.
(Mynd frá
Víkurfréttum)