Guðmundur og Ingvi Rafn skrifa undir
Þeir Guðmundur Steinarsson og Ingvi Rafn Guðmundsson skrifuðu í dag undir samninga við Keflavík. Eins og flestum er kunnugt hefur Ingvi átt við erfið meiðsli að stríða og hefur lítið getað leikið með Keflavíkurliðinu. Ingvi er á leiðinni til Þýskalands í uppskurð en læknirinn, Dr. Seebauer, hefur náð góðum árangri í aðgerðum á íþróttafólki. Læknirinn telur að eftir aðgerðina og nokkurra vikna sjúkraþjálfun geti Ingvi farið að leika knattspyrnu af fullum krafti. Vonandi fáum við að sjá strákinn láta ljós sitt skína á vellinum í sumar. Guðmundur Steinars hefur framlengt samning sinn og því ljóst að hann leikur með Keflavíkurliðinu í sumar. Það er ánægjulegt að piltarnir hafi framlengt veru sína hjá okkur enda báðir Keflvíkingar í húð og hár og aldir upp hjá félaginu. Við hlökkum til að sjá þá í eldlínunni með Keflavík í sumar.
Myndir: Einar Haraldsson
Ingvi Rafn og Guðmundur.
Ingvi Rafn, Rúnar formaður, Ólafur stjórnarmaður og Guðmundur.
Friðrik framkvæmdastjóri og Rúnar formaður með drengina á milli sín.